Þórsarar völtuðu yfir Keflavík í seinni hálfleik

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Keflavík í Domino's-deild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld, 108-82. Þórsarar eru á toppi deildarinnar með 14 stig.

Grétar Ingi Erlendsson kom aftur inn í lið Þórs eftir meiðsli og Baldur Þór Ragnarsson sömuleiðis. Von var á hörkuleik en Keflvíkingar voru taplausir í síðustu fimm leikjum.

Leikurinn var í járnum í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 26-30, gestunum í vil. Sama baráttan hélt áfram í 2. leikhluta en Þór skoraði sex síðustu stigin í leikhlutanum og tryggði sér sex stiga forskot í hálfleik, 54-48.

Þórsarar mættu mjög ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og komust strax í 67-52. Þeir juku forskotið svo enn frekar þegar leið á leikhlutann þar sem Ben Smith og David Jackson voru funheitir í sókninni. Staðan var 80-63 að þriðja leikhluta loknum.

Í síðasta fjórðungnum lönduðu Þórsarar síðan sigrinum af öryggi en Keflvíkingar ógnuðu þeim ekkert.

Ben Smith var stigahæstur Þórsara með 24 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar, David Jackson skoraði 23 stig, Guðmundur Jónsson 21, Grétar Ingi Erlendsson 19 og Darrell Flake 12.

Fyrri greinGóður sigur FSu
Næsta greinSelfyssingar steinlágu í Garðabænum