Þórsarar undir í jöfnum leik

Þór Þorlákshöfn tapaði 74-78 þegar Njarðvíkingar komu í heimsókn í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var jafnt og spennandi allan tímann, varnarleikurinn í hávegum hafður lengst af og ágætis barátta úti á vellinum.

Staðan var 39-43 í leikhléi en Þórsarar náðu að jafna, 59-59, í upphafi 4. leikhluta. Leikurinn var í járnum eftir það en Njarðvíkingar fóru langt með að klára leikinn þegar tvær mínútur voru eftir og Maciek Baginski setti niður risastóran þrist, og gerði gömlu félögum sínum í Þorlákshöfn mikinn óleik. Njarðvík náði fimm stiga forskoti og Þórsarar náðu ekki að svara fyrir það þrátt fyrir mikla refskák á lokamínútunni þar sem Njarðvíkingar voru komnir með skotrétt.

Jesse Pellot-Rosa var bestur í liði Þórs, þrátt fyrir slaka skotnýtingu, og Emil Karel EInarsson átti sömuleiðis ágætan leik, sem og Snorri Hrafnkelsson.

Tölfræði Þórs: Jesse Pellot-Rosa 23/8 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 15/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 14/10 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 5, Adam Eiður Ásgeirsson 2, Magnús Breki Þórðason 2, Óli Ragnar Alexandersson 2, Ólafur Helgi Jónsson 5 fráköst.

Fyrri greinFjórir leikmenn á förum frá Selfossi
Næsta greinFSu enn án stiga