Þórsarar töpuðu toppslagnum

Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega fyrir Grindavík í uppgjöri toppliðanna í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Grindavík. Lokatölur voru 89-87.

Munurinn var lítill á liðunum allan tímann og skiptust þau á um að halda forystunni. Grindavík vann fyrsta leikhlutann með fjórum stigum, 19-15, en Þór vann 2. leikhlutann með fjórum stigum og staðan var því jöfn í hálfleik, 40-40.

Það sama var uppi á teningnum í 3. leikhluta sem Grindvíkingar unnu með fjórum stigum og leiddu 70-66 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Hann var æsispennandi og þegar þrjár mínútur voru eftir komust Þórsarar yfir aftur, 81-82. Baráttan var mikil á lokamínútunum og þegar tuttugu sekúndur voru eftir setti Ben Smith niður eitt víti fyrir Þór til að jafna, 87-87.

Grindvíkingar skoruðu með sniðskoti þegar tvær sekúndur voru eftir og sá tími dugði Þórsurum ekki til að jafna því David Jackson fékk dæmdan á sig ruðning í vonlausri stöðu þegar lokaflautan gall.

Grindavík er nú á toppnum með 22 stig en næst koma Þórsarar og Snæfell, sem lagði Stjörnuna í kvöld, með 20 stig.

Benjamin Smith var stigahæstur hjá Þór í kvöld með 26 stig en besti maður liðsins var David Jackson sem skoraði 23 stig og tók 10 fráköst. Darri Hilmarsson skoraði 14, Darrell Flake 11 og tók 10 fráköst, Guðmundur Jónsson skoraði 6, Baldur Þór Ragnarsson 5 og Emil Karel Einarsson 2.

Fyrri greinÁrborg ekki lengur undir eftirliti
Næsta grein88 milljónir í verkefni á Suðurlandi