Þórsarar töpuðu heima

Þór Þorlákshöfn náði ekki að landa sigri þegar KR kom í heimsókn í kvöld í Domino's-deild karla í körfubolta.

Gestirnir voru sterkari í leiknum og leiddu í hálfleik, 37-53. Þórsarar mættu ákveðnir til seinni hálfleiks en höfðu þó ekki erindi sem erfiði og gestirnir juku muninn aftur í síðasta fjórðungnum. Lokatölur urðu 78-99.

Mike Cook Jr. skoraði 26 stig fyrir Þór, Tómas Heiðar Tómasson 18, Baldur Þór Ragnarsson 13, Nemanja Sovic 10, Ragnar Nathanaelsson 8 og Emil Karel Einarsson 3. Ragnar var frákastahæstur Þórsara með 14 fráköst.

Þór er nú í 6. sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir með 20 stig.