Þórsarar sterkir í fyrri hálfleik

Þór vann góðan sigur á Keflavík þegar liðin mættust í Domino’s-deild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur voru 80-75.

Þórsarar byrjuðu vel í leiknum, komust í 17-10 og leiddu 25-15 að loknum 1. leikhluta. Í 2. leikhluta héldu Þórsarar áfram að spila fína vörn, héldu Keflavík í tíu stigum í leikhlutanum og leiddu 43-25 í hálfleik.

Keflvíkingar svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og náðu að minnka muninn í sjö stig áður en síðasti fjórðungurinn hófst, 60-53. Þór náði að halda aftur af Keflvíkingum í 4. leikhluta, gestirnir minnkuðu muninn niður í eitt stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, 74-73, en Þórsarar kláruðu leikinn með góðri baráttu og sigruðu með fimm stiga mun.

Vincent Sanford var stigahæstur Þórsara með 23 stig, Grétar Ingi Erlendsson skoraði 14, Tómas Heiðar Tómasson 13, Emil Karel Einarsson 11, Baldur Þór Ragnarsson 9, Nemanja Sovic 6 og Oddur Ólafsson 4.

Að þremur umferðum loknum hafa Þórsarar fjögur stig og eru í 4. sæti deildarinnar.

Fyrri greinÁrborg beið lægri hlut
Næsta greinÞrír í röð hjá Selfyssingum