Þórsarar sneru taflinu við eftir hlé

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Haukum í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld. Liðin mættust í Þorlákshöfn þar sem Þór hafði 94-84 sigur.

Þórsarar byrjuðu afleitlega í leiknum en Haukar leiddu 11-30 eftir fyrsta leikhluta. Þórsarar klóruðu í bakkann í 2. leikhluta en Haukar höfðu áfram forystuna í hálfleik, 42-55.

Það var allt annað að sjá til Þórsara í seinni hálfleik. Liðið mætti af miklum krafti inn í 3. leikhluta og náðu að komast yfir. Staðan var 73-68 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og þar náðu Þórsarar að verja forskot sitt og unnu að lokum með tíu stigum.

Þór er nú í 5. sæti deildarinnar með 16 stig, eins og Þór Ak. sem er í 4. sæti. Haukar eru hins vegar í vondum málum, 11. sætinu með 10 stig.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 33 stig/13 fráköst/7 stoðsendingar, Maciej Baginski 14 stig/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 11 stig, Emil Karel Einarsson 11 stig/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 9 stig/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9 stig, Ragnar Örn Bragason 7 stig.