Þórsarar lögðu Stjörnuna

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Stjörnunni í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld. Liðin mættust í Ásgarði þar sem Þór sigraði 80-88.

Fyrsti leikhluti var hnífjafn en undir lok hans skoruðu Darrarnir, Govens og Hilmarsson, sjö stig í röð og Þór leiddi 21-27. Þeir félagar héldu áfram í upphafi 2. leikhluta og komu Þór þá í tíu stiga forystu, 24-34. Þórsarar héldu forystunni í 2. leikhluta og var hún mest 15 stig en Stjarnan minnkaði muninn á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og staðan var 40-49 í hálfleik.

Munurinn hélst svipaður í 3. leikhluta en Justin Shouse minnkaði muninn í sjö stig, 56-63, með síðustu körfu leikhlutans. Þórsarar hleyptu Stjörnunni ekki nær og kláruðu leikinn vel á vítalínunni í síðasta fjórðungnum.

Matthew Hairston átti stórleik fyrir Þórsara, skoraði 23 stig, tók 16 fráköst og varði 7 skot. Blagoj Janev skoraði 22 stig, Darrin Govens 20 og Darri Hilmarsson 12.

Fjögur stig til viðbótar hefðu dugað Þórsurum til að fara uppfyrir Stjörnuna á stigatöflunni en Stjarnan vann fyrri leik liðanna með 11 stiga mun. Stjarnan er í 3. sæti deildarinnar en Þór í 5. sæti en liðin í 2.-5. sæti eru öll með 20 stig.