Þórsarar langt frá sínu besta

Þórsarar töpuðu illa þegar Haukar komu í heimsókn í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Haukar réðu lögum og lofum og lokatölur urðu 76-104.

Þórsarar voru ekki með í fyrri hálfleik, Haukar komust í 6-16 og leiddu 13-26 að loknum 1. leikhlutanum og staðan var orðin 32-53 í hálfleik.

Haukar juku forskotið enn frekar í 3. leikhluta en síðasti fjórðungurinn var jafn og lokatölur leiksins urðu 76-104. Stærsti deildarsigur Hauka í Þorlákshöfn.

Ragnar Nathanaelsson hefur verið samur og jafn í allan vetur og hann hélt sínu striki með 18 stig og 11 fráköst. Framlag annarra Þórsara hefði mátt vera meira en Mike Cook skoraði 16 stig, Baldur Þór Ragnarsson 12, Tómas Heiðar Tómasson 10, Þorsteinn Már Ragnarsson 8, Nemanja Sovic 7, Davíð Arnar Ágústsson 3 og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2.

Með sigrinum fóru Haukar uppfyrir Þór en Þorlákshafnarliðið er nú í 7. sæti deildarinnar með 8 stig.

Fyrri greinSelfoss gaf eftir í seinni hálfleik
Næsta grein„Æðislegt að vera kominn aftur“