Þórsarar kældu bikarmeistarana

Þór Þorlákshöfn lagði nýkrýnda bikarmeistara Keflavíkur í frábærum körfuboltaleik í Icelandic Glacial höllinni í gærkvöldi. Lokatölur voru 75-65.

Heimamenn komu sterkir til leiks og spiluðu mjög góða vörn. Illa gekk hjá Keflvíkingum að klára sóknir sínar almennilega. Munurinn varð mestur 10 stig í fyrsta leikhluta í stöðunni 22-12, heimamönnum í vil, en gestirnir náðu að laga stöðuna örlítið fyrir lokin og staðan eftir 1. leikhluta var 22-17.
Jafnræði var með liðunum í byrjun 2. leikhluta. Heimamenn spiluðu frábæra vörn í fyrri hálfleik en þar voru Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson fremstir meðal jafningja. Lítið gekk upp hjá gestunum sóknarlega en þeir spiluðu þó fína vörn. Þór náði að loka leikhlutanum með 12 stiga mun. Staðan í hálfleik var 42-30 heimamönnum í vil.
Það var eins og gestirnir væru ekki mættir til leiks í byrjun seinni hálfleiks og heimamenn gengu á lagið. Þeir náðu tuttugu stiga forystu um miðjan 3. leikhluta þegar Darrin Govens setti niður þrist. Þá vöknuðu Keflvíkingar til lífsins og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Síðustu fjórar og hálfa mínútuna skoruðu heimamenn aðeins 2 stig. Staðan fyrir loka leikhlutann var 60-52.
Keflvíkingar héldu áfram að saxa niður forskotið og náðu muninum minnst niður í 2 stig í stöðunni 67-65 þegar um 3 mínútur lifðu af leiknum. Þá bitu heimamenn frá sér með góðri vörn og skynsömum sóknarleik. Heimamenn kláruðu svo leikinn með síðustu 8 stigum leiksins.
Þórsarar lönduðu sætum 10 stiga sigri og þar með eru þeir með betri innbyrðis viðureign á Keflavík.
Darrin Govens var stigahæstur hjá Þór með 22 stig, Blagoj Janev skoraði 21 stig og tók 10 fráköst og Matthew Hairston var mjög öflugur með 15 stig og 20 fráköst. Menn kvöldsins voru hins vegar Guðmundur og Darri sem áttu stórleik þrátt fyrir að hafa einungis skorað 17 stig samtals en þeir félagar sýndu frábæran varnarleik. Guðmundur skoraði 10 stig og Darri 7.