Þórsarar jörðuðu Laugdæli í lokin

Þór lagði Laugdæli, 106-69, í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Leikur gestanna hrundi á lokamínútunum og Þórsarar gengu á lagið.

Heimamenn voru sterkari í upphafi leiks og náðu þá fjórtán stiga forskoti sem þeir héldu fram að hálfleik. Laugdælir tóku þó við sér í 2. leikhluta og úr varð hörkuleikur. Staðan í leikhléi var 55-42.

Laugdælir byrjuðu mun betur í síðari hálfleik og náðu að minnka forskot heimamanna niður í fjögur stig, 64-60, þegar fjórar mínútur voru eftir af 3. leikhluta. Bjarni Bjarnason bar uppi leik gestanna og því snardökknaði útlitið fyrir Laugdæli þegar Bjarni fékk sína 5. villu þegar 12 mínútur voru eftir af leiknum.

Leikur Laugdæla var hreint út sagt vandræðalegur án Bjarna en á síðustu 12 mínútum leiksins skoruðu gestirnir aðeins 7 stig gegn 37 stigum heimamanna. Þórsarar unnu því auðveldan sigur þegar upp var staðið og sitja enn ósigraðir á toppi deildarinnar.

Eric Palm skoraði 30 stig fyrir Þór, tók 8 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Vladimir Bulut skoraði 27 stig og tók 17 fráköst. Þorsteinn Már Ragnarsson átti líka fínan leik og skoraði 22 stig.

Hjá Laugdælum var Bjarni stigahæstur með 21 stig, Pétur Már Sigurðsson skoraði 15 og Sigurður Orri Hafþórsson 14.

Staðan:
1 Þór Þ. 6/0
2 FSu 5/1
3 Þór Ak. 5/1
4 Skallagrímur 3/3
5 Valur 3/3
6 Breiðablik 2/3
7 Ármann 2/4
8 Laugdælir 2/5
9 Leiknir 1/4
10 Höttur 1/6