Þórsarar í úrvalsdeild

Þór Þorlákshöfn tryggði sér sigur í 1. deild karla í körfubolta í kvöld með því að leggja Val að velli á heimavelli, 99-79.

Þórsarar eiga fjóra leiki eftir í deildinni en yfirburðir þeirra hafa verið slíkir í vetur að enginn keppinautanna á möguleika á því að ná þeim að stigum.

Þeir grænu voru lengi í gang í kvöld en þeir náðu 11 stiga forskoti um miðjan 2. leikhluta, 37-26. Valsarar svöruðu fyrir sig og minnkuðu muninn í 42-40 en staðan var 50-42 í hálfleik.

Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik náðu Þórsarar góðu skriði í 3. leikhluta þar sem forskotið var 20 stig að honum loknum, 75-55. Þór hélt sínu striki í síðasta fjórðungnum og fagnaðarlætin voru mikil í leikslok þegar ljóst var að Þór Akureyri hafði tapað fyrir Skallagrím á sama tíma. Þar með var sæti Þorlákshafnarliðsins í úrvalsdeildinni tryggt.

Eric Palm var stigahæstur Þórsara með 33 stig, Grétar Ingi Erlendsson skoraði 18 og Vladimir Bulut 17 auk þess að taka 13 fráköst.

Fyrri greinHrókeringar á Þingborg um helgina
Næsta grein„Hættum ekki að spila körfubolta“