Þórsarar í toppmálum um jólin

Þór Þorlákshöfn hafði betur þegar liðið heimsótti Snæfell í algjörum toppslag í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld, 92-97.

Liðin voru jöfn Grindvíkingum að stigum í 1.-3. sæti deildarinnar fyrir leikinn svo ljóst var að um verðugt verkefni var að ræða fyrir bæði lið.

Fyrri hálfleikur var í járnum, staðan var 23-22 að loknum 1. leikhluta, en Þórsarar náðu að tryggja sér fjögurra stiga forskot fyrir leikhlé, 44-48.

Þórsarar voru ákveðnari í upphafi síðari hálfleiks og leiddu 66-77 að loknum 3. leikhluta. Þeim beið svo ærið verkefni að halda aftur af Snæfellingum í síðasta leikhlutanum en tókst það og Þorlákshafnarliðið vann að lokum fimm stiga sigur, 92-97.

Ben Smith var stigahæstur hjá Þór með 23 stig, David Jackson skoraði 22, Grétar Erlendsson 14 og þeir Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson skoruðu báðir 12 stig.

Grindavík vann Fjölni í kvöld svo að Þórsarar fara inn í jólafríið á toppnum með 16 stig ásamt Grindvíkingum.

Fyrri greinÞrír 17 ára piltar handteknir
Næsta greinNýtt jólalag með Kiriyama Family