Þórsarar hefndu sín á Stólunum

Þórsarar eru eitt fjögurra liða sem eru efst í Domino's-deild karla í körfubolta eftir að liðið lagði Tindastól á útivelli í kvöld, 85-101.

Þar með hefndu Þórsarar ófaranna frá síðustu viðureign liðanna en Stólarnir slógu Þór úr leik í undanúrslitum Lengjubikarsins um síðustu helgi.

Það blés reyndar ekki byrlega fyrir Þórsara í upphafi leiks í kvöld en þeir léku án Grétars Erlendssonar og Baldurs Ragnarssonar sem báðir eru meiddir. Tindastóll byrjaði betur og eftir fimm mínútna leik breyttu þeir stöðunni úr 11-8 í 32-17.

Þórsarar komu sterkir til baka í 2. leikhluta, byrjuðu á 7-21 áhlaupi og náðu að jafna 41-41. Staðan í hálfleik var 47-45.

Þórsliðið komst yfir strax í upphafi seinni hálfleiks, 51-52, og leit ekki til baka eftir það. Þeir juku muninn jafnt og þétt í 3. leikhluta og að honum loknum var staðan 66-78 eftir að Ben Curtis hafði raðað niður fimm vítaskotum í röð.

Darrell Flake hóf síðasta fjórðunginn á sex stigum í röð og forskot Þórs var þá komið í átján stig. Stólarnir áttu ekki afturkvæmt eftir þetta og Þórsarar sigldu sigrinum í örugga höfn.

Benjamin Smith var stigahæstur Þórsara með 31 stig en David Jackson skoraði 30 auk þess að taka 11 fráköst. Darri Hilmarsson skoraði 24 stig, Darrell Flake 14 og Guðmundur Jónsson 2.

Þór hefur nú tólf stig á toppi deildarinnar eins og Grindavík, Snæfell og Stjarnan.

Fyrri greinBæjarjólatréð fellt í Borgarhrauninu
Næsta greinJólamarkaður VISS opnar í dag