Þórsarar glaðir um jólin

Þorlákshafnar-Þórsarar fara glaðir inn í jólafríið eftir góðan útisigur á Snæfelli í Domino’s-deild karla í kvöld. FSu tapaði hins vegar fyrir Tindastól, einnig á útivelli.

Þórsarar tóku leikinn í Stykkishólmi strax í sínar hendur og leiddu 32-59 í hálfleik. Seinni hálfleikur var jafnari en Snæfellingar náðu ekki að vinna niður gott forskot Þórsara. Lokatölur urðu 82-100.

Tölfræði Þórs: Vance Hall 37 stig/10 fráköst/5 stoðsendingar (40 í framlagseinkunn), Grétar Ingi Erlendsson 17 stig/5 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 14 stig/12 fráköst, Emil Karel Einarsson 13 stig/7 fráköst, Ragnar Örn Bragason 9 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson 5 stig, Halldór Garðar Hermannsson 3 stig, Magnús Breki Þórðason 2 stig.

Liðsmenn FSu lentu í hrakningum á leiðinni norður á Sauðárkrók og var leiknum seinkað um 45 mínútur þar sem vond færð var á leiðinni norður. Hvort ferðalagið hafi setið í Selfyssingunum er óvíst, en þeir lentu undir strax í upphafi leiks og heimamenn leiddu 56-35 í hálfleik. Seinni hálfleikur var jafnari en Tindastóll hafði frumkvæðið og vann að lokum 107-80 sigur.

Tölfræði FSu: Chris Woods 30 stig/12 fráköst (30 í framlagseinkunn), Hlynur Hreinsson 15 stig/4 fráköst, Ari Gylfason 12 stig, Gunnar Ingi Harðarson 10 stig, Cris Caird 9 stig/5 fráköst, Geir Helgason 3 stig, Svavar Ingi Stefánsson 1 stig.