Þórsarar fundu ekki fjölina sína

Þór Þorlákshöfn gerði ekki góða ferð norður á Akureyri í dag því liðið tapaði 80-69 gegn Þór Akureyri í Domino’s-deild karla í körfubolta.

Heimamenn voru ákveðnari í upphafi leiks og voru komnir með gott forskot í hálfleik, 49-32. Þorlákshafnar-Þórsarar nörtuðu í hælana á nöfnum sínum frá Akureyri í síðari hálfleik og náðu að minnka bilið lítillega en að lokum skildu 11 stig liðin að.

Þór Þ er nú í 5. sæti deildarinnar með 8 stig en Þór Ak. er í 9. sæti með 6 stig.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 23 stig/9 fráköst, Maciej Baginski 11 stig/4 fráköst, Emil Einarsson 10 stig/4 fráköst, Ólafur Jónsson 8 stig/7 fráköst, Grétar Erlendsson 7, Halldór Garðar Hermannsson 5, Ragnar Örn Bragason 3, Þorsteinn Már Ragnarsson 2.