Þórsarar áfram í 4. sæti

Þór Þorlákshöfn heldur fjórða sætinu í Domino’s-deild karla í körfubolta þrátt fyrir tap gegn toppliði KR á heimavelli í gærkvöldi.

Leikurinn var stórskemmtilegur og spennandi, KR byrjaði betur en Þórsarar komu sterkir inn í 2. leikhlutann og tryggðu sér forskot fyrir leikhléið, 46-38.

KR-ingar voru sterkari í síðari hálfleik og þeir komust yfir aftur, 63-64, undir lok 3. leikhluta. Halldór Hermannsson opnaði 4. leikhlutann á þristi og kom Þórsurum fimm stigum yfir og næstu mínútur voru æsispennandi. Um miðjan fjórðunginn gerðu KR-ingar 3-11 áhlaup og breyttu stöðunni í 80-90.

Þórsarar náðu að klóra sig inn í leikinn aftur og Tobin Carberry minnkaði muninn í tvö stig þegar rúm hálf mínúta var eftir. KR klúðraði næsta skoti en náði sóknarfrákastinu og Sigurður Þorvaldsson kláraði leikinn fyrir þá á vítalínunni þegar átta sekúndur voru eftir, 91-95.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 23 stig/10 fráköst/7 stoðsendingar, Maciej Baginski 19 stig/6 fráköst, Halldór Hermannsson 14 stig, Ragnar Örn Bragason 13 stig, Ólafur Helgi Jónsson 11 stig/5 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 7 stig, Emil Karel Einarsson 4 stig/5 fráköst.