Þórir með bestu nýtinguna

Selfyssingurinn Þórir Ólafsson er með bestu skotnýtinguna af tuttugu markahæstu leikmönnum Heimsmeistaramótsins í handbolta.

Þórir hefur skorað 18 mörk á mótinu og aðeins misnotað tvö skot í leikjunum fjórum. Það gerir 90% skotnýtingu.

Þórir hefur verið frábær í síðustu leikjum, gegn Japan og Austurríki, og hefur m.a. sýnt stáltaugar á vítalínunni. Hann skoraði fimm mörk gegn Austurríki í kvöld og sjö mörk gegn Japan í gær.

Guðjón Valur Sigurðsson er markahæsti leikmaður mótsins ásamt tveimur Norðmönnum með 26 mörk og Alexander Petersson er fjórði með 24 mörk.