Þórir heimsmeistari í annað sinn

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu í handbolta til sigurs á heimsmeistaramótinu í gær í annað sinn. Noregur vann Holland 31-23 í úrslitaleiknum.

Norska liðið gerði út um leikinn í fyrri hálfleik en staðan var 20-9 í leikhléi.

Þetta er i annað sinn Þórir verður heims­meist­ari með norska liðinu en það vann titil­inn und­ir hans stjórn í Bras­il­íu árið 2011. Þetta er þriðji heims­meist­ara­tit­ill Norðmanna.

Þórir hefur stýrt norska liðinu frá árinu 2009 eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari liðsins í átta ár. Hann hefur náð frábærum árangri með liðið sem er í dag handhafi allra þriggja stóru titlanna. Noregur varð Evrópumeistari í fyrra, Ólympíumeistari árið 2012 og nú heimsmeistari.

Auk þess vann Þórir brons á HM með norska liðinu árið 2009, gull á EM 2010 og silfur á EM 2012.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Ölvaður ökumaður klipptur út eftir veltu
Næsta greinKosning hafin á Sunnlendingi ársins 2015