Þórhallur skoraði þrennu fyrir Stokkseyringa

Ægir og KFR töpuðu leikjum sínum í 2. og 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld en Stokkseyringar unnu sinn leik í 4. deildinni.

Í 2. deildinni tapaði Ægir 1-3 fyrir KV á heimavelli á meðan Njarðvík vann Tindastól. Af því leiðir að Ægismenn eru komnir í fallsæti í 2. deildinni þegar átta umferðir eru eftir. Ægir er með 11 stig í 11. sæti en þéttur pakki liða er í 6.-11. sæti deildarinnar.

KV komst yfir á 28. mínútu og leiddi 0-1 í hálfleik. Gestirnir bættu svo við tveimur mörkum undir lok leiks en Ramon Torrijos Anton minnkaði muninn fyrir Ægi í uppbótartíma.

KFR að sogast niður í harða botnbaráttu
Það syrtir líka í álinn hjá KFR í 3. deildinni en liðið tapaði mikilvægum stigum gegn Berserkjum í botnbaráttu deildarinnar. Lokatölur á Víkingsvelli voru 3-2. Berserkir komust í 2-0 í fyrri hálfleik en Haukur Ingi Gunnarsson minnkaði muninn strax í upphafi seinni hálfleiks.

Berserkir bættu þriðja markinu við á 60. mínútu en Hjalti Kristinsson minnkaði muninn þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum og þar við sat.

KFR er nú í 7. sæti deildarinnar með 13 stig en Víðir og Berserkir eru þar fyrir neðan með 10 stig.

Stokkseyri kláraði leikinn á fimm mínútum
Stokkseyri var eina sunnlenska knattspyrnuliðið sem gat glaðst í kvöld en Stokkseyri vann öruggan sigur á Kóngunum á útivell í 4. deildinni.

Þórhallur Aron Másson kom Stokkseyri yfir með marki úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks, og hann hóf seinni hálfleikinn með öðru marki sínu, aftur úr vítaspyrnu á 47. mínútu. Þremur mínútum síðar hafði Örvar Hugason komið Stokkseyri í 0-3.

Kóngarnir réttu úr kútnum á 66. mínútu en mörkin urðu ekki fleiri, allt þar til á 85. mínútu að Þórhallur kórónaði þrennuna og tryggði Stokkseyri 1-4 sigur.

Stokkseyri er áfram í 5. sæti riðilsins, nú með 9 stig en þetta var þriðji sigur liðsins í sumar.

Fyrri grein„Þessi gæi er ekki að fara að skora svona mark aftur“
Næsta greinSnípufluga breiðir úr sér á Suðurlandi