Þór vann Grindavík aftur – komnir í 2. sætið

Nýliðar Þórs Þorlákshöfn lögðu deildarmeistara Grindavíkur í annað sinn í Iceland Express deild karla í vetur þegar liðin mættust í Suðurstrandarslag í Þorlákshöfn í kvöld, 79-69.

Grindvíkingar voru skrefinu á undan í jöfnum 1. leikhluta og Darrin Govens var eini Þórsarinn sem lét til sín taka í sókninni. Hann skoraði átta af þrettán stigum Þórs í 1. leikhluta og staðan var 13-16 að tíu mínútum liðnum. Annar leikhluti var fjörugur og liðin skiptust á að skora en staðan var jöfn, 36-36 í hálfleik.

Þórsarar létu sverfa til stáls í upphafi seinni hálfleiks og náðu fimmtán stiga forystu, 55-45, en staðan var 59-48 fyrir síðasta leikhlutann. Þórsarar héldu ró sinni í 4. leikhluta og héldu svipuðu forskoti út leikinn.

Darrin Govens var bestur hjá Þórsurum í kvöld, skoraði 27 stig. Blagoj Janev skoraði 20 stig og tók 10 fráköst og Guðmundur Jónsson skoraði 14 stig. Matthew Hairston skoraði 7 stig og tók 10 fráköst.

Þór er eina liðið sem unnið hefur deildarmeistara Grindavíkur á Íslandsmótinu. Þetta var fimmti deildarsigur Þórs í röð og batt hann enda á tíu leikja sigurgöngu Grindvíkinga í deildinni. Með sigrinum í kvöld fara Þórsarar upp í 2. sæti deildarinnar.