Þór upp í 3. sætið

Þórsarar unnu góðan 86-105 sigur á Fjölni í Iceland Express-deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Þórsarar voru slakir í upphafi leiks en stigu hressilega upp í seinni hálfleik.

Þórsarar voru með hugann við eitthvað allt annað en körfubolta í 1. leikhluta, spiluðu hörmulega vörn og leyfðu Fjölnismönnum að skora 38 stig á fyrstu tíu mínútunum. Þór lenti 18-6 undir en mestur varð munurinn 19 stig í 1. leikhluta, 35-16. Þá tóku Þórsarar ágætan sprett og minnkuðu muninn í 38-23.

Baldur Þór Ragnarsson kom inná í 2. leikhluta og hann barði sína menn í gang. Baldur setti niður tvo þrista og sá síðari var upphafið af 16-3 kafla Þórsara undir lok fyrri hálfleiks. Með þeim spretti sneru þeir stöðunni sér í vil, úr 50-41 í 53-57 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þórsarar voru mun betri í seinni hálfleik og náðu góðu forskoti í 3. leikhluta, 72-58. Fjölnismenn komu þó alltaf til baka og staðan var 79-71 fyrir lokaleikhlutann. Þar kláruðu Þórsarar leikinn af yfirvegun og tryggðu sér góðan sigur.

Á sama tíma tapaði KR fyrir Grindavík svo að Þórsarar færðust með sigrinum upp í 3. sæti deildarinnar.

Matthew Hairston átti enn einn stórleikinn fyrir Þór og sýndi enn og aftur ótrúleg tilþrif við að verja skot andstæðinganna. Hairston skoraði 28 stig og tók 14 fráköst auk þess að verja 8 bolta. Darrin Govens átti fínan leik og skoraði 25 stig eftir að hafa hitt illa í byrjun leiks. Guðmundur Jónsson skoraði 21 stig og steig hressilega upp á lokakaflanum. Darri Hilmarsson átti einnig fínan leik og skoraði 13 stig.

Heimasíða Þórs