Þór tapaði í 200 stiga leik

Þórsarar fengu slæma útreið þegar þeir heimsóttu Tindastól í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Tindastóll skoraði 63 stig í fyrri hálfleik og sigraði að lokum 110-90.

Þórsarar byrjuðu illa í leiknum og Tindastóll raðaði inn stigunum. Heimamenn komust í 14-2 og 27-9 en staðan eftir 1. leikhluta var 33-17.

Þór skoraði fyrstu tíu stigin í 2. leikhluta og minnkaði muninn í 33-27 en Stólarnir svöruðu með fjórtán stigum í röð og 14-2 áhlaupi undir lok fyrri hálfleiks. Þórsvörnin var hriplek en samtals skoraði Tindastóll 63 stig í fyrri hálfleik, gegn 40 stigum Þórsara.

Seinni hálfleikurinn var í mun meira jafnvægi en Þórsurum tókst ekki að brúa bilið. Munurinn varð minnstur ellefu stig undir lok leiksins, 101-90, en Tindastóll skoraði síðustu níu stig leiksins og tryggði sér 110-90 sigur.

Vincent Sanford var stigahæstur Þórsara með 27 stig, Tómas Tómasson skoraði 19, Þorsteinn Már Ragnarsson 13, Nemanja Sovic 10, Baldur Þór Ragnarsson 9, Emil Karel Einarsson 5, Oddur Ólafsson 3 og þeir Grétar Ingi Erlendsson og Halldór Garðar Hermannsson skoruðu báðir 2 stig.

Fyrri greinRáðast í átak gegn sóun á vatni
Næsta greinDældu sjó úr Friðriki Sigurðssyni