Þór tapaði en fer samt í úrslit

Þórsarar eru komnir í undanúrslit Lengjubikars karla í körfubolta þrátt fyrir tap gegn Njarðvíkingum í lokaumferðinni Þorlákshöfn í kvöld, 83-88.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur og voru með undirtökin nánast allan tímann en varnarleikur Þórsara komst aldrei á almennilegt flug. Bæði lið áttu möguleika á sæti í úrslitakeppninni fyrir leikinn en Njarðvíkingar þurftu að vinna leikinn með 9 stiga mun til þess að komast uppfyrir Þórsara í efsta sæti riðilsins.

Njarðvíkingar leiddu með 6 stigum í hálfleik, 41-47, en þrátt fyrir það stóðu áhorfendur í Þorlákshöfn á fætur og klöppuðu þegar að flautan gall, því Ben Smith negldi niður ævintýralegri flautukörfu langt fyrir aftan miðju.

Þórsarar voru aldrei langt frá Njarðvíkingum og náðu raunar að komast yfir á tímabili í fjórða leikhluta. Þeir spiluðu hins vegar illa úr þeirri stöðu og Njarðvíkingar komust strax yfir aftur. Njarðvík leiddi með tveimur stigum þegar Þórsarar lögðu upp í sína síðustu sókn þar sem Ben Smith átti að taka úrslitaþrist til að hafa sigurinn af Njarðvík en boltinn vildi ekki ofaní.

Þá tók Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson frákast og kastaði boltanum upp í loftið rétt fyrir utan sinn eigin vítateig. Boltinn sveif yfir völlinn og fór svo á undraverðan hátt ofan í körfuna. Mögnuð karfa hjá stráknum og lokaflautan gall í kjölfarið.

Ben Smith var stigahæstur Þórsara með 24 stig, David Jackson skoraði 21, Grétar Ingi Erlendsson 13, Guðmundur Jónsson 9, Darri Hilmarsson og Baldur Þór Ragnarsson 7 og Emil Karel Einarsson 2.

Þrátt fyrir tapið eru Þórsarar komnir í undanúrslit keppninnar en úrslitahelgin verður í Stykkishólmi um næstu helgi. Þór mætir Tindastóli á föstudagskvöld en sigurliðið leikur til úrslita gegn Snæfelli eða Grindavík á laugardag.

Umfjöllun Karfan.is

Fyrri greinKR marði Hamar
Næsta greinUnnið að úrbótum í Reykjadal