Þór sýndi FSu enga miskunn

Lið Þórs frá Þorlákshöfn er komið í undanúrslit Maltbikars karla í körfubolta eftir stórsigur á nágrönnum sínum í FSu frá Selfossi í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld.

Þórsarar tóku leikinn í sínar hendur strax í 1. leikhluta. Þór komst í 27-3 undir lok fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 32-7. Leikurinn var jafn framan af 2. leikhluta en þá tóku heimamenn aftur af skarið og 17-3 áhlaup undir lok fyrri hálfleiks skilaði þeim 37 stiga forskoti í leikhléi, 62-25.

Seinni hálfleikurinn var jafnari, enda úrslitin ráðin. Þór bætti lítillega við forskotið í 3. leikhluta en FSu rétti sinn hlut í síðasta fjórðungnum. Lokatölur urðu 104-68.

Ragnar Örn Bragason var stigahæstur hjá Þór með 20 stig, Halldór Hermannsson skoraði 16, Ólafur Helgi Jónsson 13 og þeir Emil Karel Einarsson, Davíð Arnar Ágústsson og Grétar Ingi Erlendsson skoruðu allir 11 stig. Tobin Carberry einbeitti sér að fráköstunum og tók 14 slík og Ólafur Helgi átti 7 stoðsendingar.

Terrence Motley var stigahæstur hjá FSu með 15 stig, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson skoraði 11 og þeir Jón Jökull Þráinsson og Svavar Stefánsson skoruðu báðir 10 stig.

Dregið verður í undanúrslit Maltbikarsins eftir hádegi á morgun, þriðjudag.