Þór mætir Grindavík í úrslitakeppninni

Þór Þorlákshöfn mætir Grindavík í 8-liða úrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta. Þór tapaði fyrir ÍR í kvöld í lokaumferð deildarinnar, 95-85.

Þórsarar voru sterkari í fyrri hálfleik í leiknum gegn ÍR og leiddu í hálfleik, 39-47. Þorlákshafnarliðið gaf hins vegar eftir í síðari hálfleik, ÍR jafnaði undir lok 3. leikhluta og síðustu fimm mínútur leiksins voru heimamenn með forystuna.

Mike Cook Jr. var stigahæstur Þórsara með 26 stig, Tómas Heiðar Tómasson skoraði 16, Emil Karel Einarsson 13, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 11, Nemanja Sovic 10 og Baldur Þór Ragnarsson 9.

Einvígi Þórs og Grindavíkur hefst næsta fimmtudag í Grindavík. Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í vetur í deild og bikar og hefur Grindavík unnið tvívegis en Þórsarar einu sinni.