Þór í úrslit Lengjubikarsins

Þórsarar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Lengjubikars karla í körfubolta með því að leggja Skallagrím á heimavelli, 97-81.

Þórsarar byrjuðu betur í leiknum, komust í 16-4 og leiddu eftir 1. leikhluta, 24-12. Gestirnir minnkuðu muninn í 6 stig, 29-23, í upphafi 2. leikhluta og munurinn hélst svipaður fram að hálfleik, 37-31.

Þriðji leikhluti var jafn til að byrja með en um hann miðjan náðu Þórsarar 10-2 leikkafla og hristu þá Skallagrím endanlega af sér. Staðan var þá 76-52 en munurinn var 19 stig í lok 3. leikhluta, 83-64. Leikurinn var í jafnvægi í síðasta fjórðungnum og sigur Þórsara var aldrei í hættu.

Darrin Govens skoraði 24 stig fyrir Þór og tók 10 fráköst. Michael Ringgold skoraði 22 stig, Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson voru báðir með 11 stig og Darri tók 11 fráköst að auki. Grétar Ingi Erlendsson skoraði 10 stig og tók 8 fráköst.

Þór mætir Grindavík í undanúrslitunum en leikurinn fer fram í DHL-höllinni í Frostaskjóli á föstudag kl. 18:30. Í hinum leiknum mætast Snæfell og Keflavík en sigurliðin úr þessum tveimur leikjum leika til úrslita á laugardag kl. 16.