Þór hitti ekkert á lokamínútunum

Grindvíkingar voru ákveðnari í upphafi leiks, komust í 14-5 og leiddu 29-17 að loknum 1. leikhluta. Munurinn hélst svipaður í 2. leikhluta en Grindvíkungar leiddu í hálfleik, 57-44.

Þórsarar voru hressari í síðari hálfleik og þeir gerðu góða atlögu að Grindvíkingum í upphafi síðari hálfleiks. Munurinn varð minnstur tvö stig, 63-61, eftir fimm mínútna leik en Grindavík hafði yfir, 71-67, þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Þór skoraði fyrstu fjögur stigin í 4. leikhluta, jafnaði 71-71, og eftir það tók Þorlákshafnarliðið forystuna. Þegar tæpar fjórar voru eftir af leiknum var staðan 81-85 en þá útveguðu heimamenn sér lok á körfuna sína og Þórsarar skoruðu ekki fleiri stig í leiknum.

Þórsarar reyndu sex þriggjastiga skot og tvö vítaskot á síðustu mínútunum en ekkert þeirra rataði ofaní. Á meðan söxuðu Grindvíkingar forskotið niður og rúmlega það en Grindavík náði forystunni aftur þegar ein mínúta var eftir af leiknum og hélt henni til loka.

Nemanja Sovic var besti maður vallarins, skoraði 26 stig fyrir Þór og tók 9 fráköst. Tómas Heiðar Tómasson skoraði 20 stig, Vincent Sanford 13 auk 12 frákasta, Emil Karel Einarsson skoraði 11 stig, Oddur Ólafsson 8, Baldur Þór Ragnarsson 4 og Þorsteinn Már Ragnarsson 3.

Fyrri greinForseti ÍSÍ í heimsókn hjá HSK
Næsta greinFækkað um tvo í Arion banka