Þór áfram í bikarnum – FSu úr leik

Þórsarar unnu öruggan sigur á Skallagrími í 16-liða úrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta í kvöld. FSu þurfti að sætta sig við tap gegn Fjölni eftir kaflaskiptan leik.

Skallagrímur hafði forystuna að loknum 1. leikhluta gegn Þór, 29-26, en gestirnir svöruðu fyrir sig fyrir leikhlé og leiddu í hálfleik, 48-51.

Þórsarar voru svo mun sterkari í síðari hálfleik, leiddu 66-83 að loknum 3. leikhluta og kláruðu leikinn svo af öryggi í síðasta fjórðungnum, 80-108.

Mike Cook Jr. var stigahæstur Þórsara með 30 stig, Nemanja Sovic skoraði 19, Tómas Heiðar Tómasson 16, Baldur Þór Ragnarsson 15, Þorsteinn Már Ragnarsson 13 og Ragnar Ágúst Nathanaelsson 10 auk þess sem hann tók 12 fráköst.

Fjölnir tók á móti FSu í 1. deildarslag í Grafarvoginum og þar höfðu heimamenn töglin og hagldirnar í fyrri hálfleik. Staðan var 59-40 í leikhléinu en Selfyssingar bitu frá sér í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn niður í tvö stig í upphafi 4. leikhluta, 83-81. Lengra komust Selfyssingar ekki, Fjölnir jók forskotið og sigraði að lokum 104-92.

Collin Pryor var besti maður vallarins með tröllatvennu fyrir FSu; 40 stig og 20 fráköst. Hlynur Hreinsson skoraði 16 stig, Ari Gylfason 14 og Svavar Ingi Stefánsson 11.

Liðin sem komin eru í 8-liða úrslit í Poweradebikarkeppni karla auk Þórsara eru Keflavík b, Tindastóll, Njarðvík, ÍR, Fjölnir og Haukar. Á morgun eigast Keflavík og Grindavík við í síðasta leik 16-liða úrslitanna.
Fyrri greinVinnsluholur prófaðar á næstu vikum
Næsta greinDansandi drekar í FSu