Þjófnaður um hábjartan dag

Kvennalið Selfoss vann 1-0 sigur á Haukum í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Haukar voru sterkari aðilinn í leiknum en sigurmark Selfoss kom í uppbótartíma.

Fyrir leikinn voru bæði liðin taplaus eftir þrjár umferðir og höfðu haldið hreinu í öllum leikjum sumarsins.

Bæði lið fengu góð færi á upphafsmínútunum en Haukar náðu fljótlega tökum á miðjunni og stjórnuðu leiknum fyrsta hálftímann. Selfossliðinu gekk ekkert að spila boltanum út úr vörninni og Haukar unnu alla bolta á miðjunni.

Á 35. mínútu komust Haukar upp að marki Selfoss en leikmaður þeirra hitti boltann illa í opnu færi á fjærstöng. Pressa Hauka slaknaði nokkuð síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks og á 40. mínútu átti Guðmunda Óladóttir gott skot að marki sem fór í varnarmann og framhjá.

Staðan var 0-0 í leikhléinu en í seinni hálfleik færðu Selfyssingar sig framar á völlinn og leikurinn opnaðist nokkuð við það. Haukar áttu fyrsta færi seinni hálfleiks en Dagný Pálsdóttir varði auðveldlega eftir að leikmaður Hauka slapp innfyrir. Fimm mínútum síðar átti Dagný lélegt útspark sem hafnaði hjá sóknarmanni gestanna en hún bætti fyrir mistökin með því að verja vel frá Haukakonunni.

Selfyssingar fengu sitt besta færi fram að þessu á 60. mínútu þegar Guðmunda slapp innfyrir en Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir var vel á verði í marki Hauka og varði í horn. Fjórum mínútum síðar átti Selfoss álitlega sókn þegar Guðmunda geystist upp vinstra megin en náði ekki góðri sendingu á Önnu Maríu Friðgeirsdóttur sem var á auðum sjó í teignum.

Síðasta korterið óðu Haukar í færum en besti maður Selfoss, Dagný Pálsdóttir, massaði allt sem að marki kom. Á 72. mínútu skapaðist hætta upp við mark Selfoss eftir fyrirgjöf frá vinstri en Selfyssingar hreinsuðu frá á síðustu stundu. Á 80. mínútu sluppu þrjár Haukakonur innfyrir flata vörn Selfoss en Dagný varði frábærlega skot af stuttu færi. Þremur mínútum fyrir leikslok sofnaði Selfossvörnin enn á verðinum en Dagný átti gott úthlaup og varði með fótunum á vítateigslínunni. Mínútu síðar voru Haukakonur aftur á ferðinni en Selfossvörnin bjargaði á elleftu stundu.

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir hafði komið inná sem varamaður þegar 15 mínútur voru eftir af leiknum og hún átti skot framhjá á 90. mínútu eftir góða sókn Selfoss. Haukar héldu áfram að pressa og skapa usla í vítateig Selfoss og fengu skyndisókn frá Selfossi í bakið í uppbótartíma. Boltinn barst á Katrínu í vítateignum og átti hún gott skot að marki sem Dúfa Dröfn varði vel en boltinn fór fyrir fætur Önnu Maríu sem fylgdi vel á eftir og skoraði auðveldlega í opið markið. Miðað við gang leiksins var um saknæman þjófnað að ræða en Anna María sleppur líklega með skilorðsbundinn dóm fyrir markið.

Selfyssingar fögnuðu vel en strax í næstu sókn sluppu Haukar á nýjan leik inn í vítateig og áttu skot hárfínt yfir markið. Þar með var síðasta hurðin skollin nærri hælunum á Selfossliðinu sem slapp inn í klefa með þrjú stig í farteskinu.

Selfoss er nú á toppi riðilsins með 12 stig og markatöluna 6-0.

Fyrri greinBorað eftir vatni á íþróttavellinum
Næsta grein„Þetta var kannski ekki fallegt”