Þjálfarinn hélt hreinu í öruggum sigri

Knattspyrnufélag Árborgar vann öruggan sigur á Afríku í lokaumferð C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur voru 0-4.

Liðin mættust á Leiknisvellinum í Breiðholti og þar réðu Árborgarar lögum og lofum frá upphafi.

Ingimar Helgi Finnsson kom Árborg yfir á 25. mínútu og undir lok fyrri hálfleiks skoraði Tómas Kjartansson og tryggði Árborg 0-2 forystu í leikhléinu.

Árborgarar komust í 0-3 á 65. mínútu þegar Kristján Valur Sigurjónsson skoraði úr vítaspyrnu og Hartmann Antonsson rak smiðshöggið á 0-4 sigur með síðasta marki leiksins á 80. mínútu.

Árborgarliðið var í markmannsvandræðum fyrir leikinn og því tók þjálfarinn, Guðjón Bjarni Hálfdánarson, það að sér að fara í hanskana. Hann stóð vaktina með sóma og hélt hreinu í sínum fyrsta leik á milli stanganna.