Þingað um framtíð ungmennafélaganna

Næstkomandi mánudagskvöld kl. 20:30 verður haldið málþing í Félagslundi um framtíð ungmennafélaganna í Flóahreppi.

Nú þegar 10 ár eru liðin síðan Flóaskóli var stofnaður og sveitarfélagið Flóahreppur varð til í kjölfarið hafa ungmennafélögin í Flóahreppi ákveðið að boða til málþings um framtíð ungmennafélaganna í Flóahreppi. Þrjú félög eru í hreppnum; Umf. Baldur, Umf. Vaka og Umf. Samhygð.

„Í okkar samfélagi þar sem gömlu hreppamörkin verða sífellt óljósari heyrast oft raddir sem vilja að í Flóahreppi verði eitt ungmennafélag sem haldi utan um íþrótta- og menningarstarfsemi sveitarfélagsins. Börnin í sveitinni eru saman í skóla og keppa nú þegar undir sama merki í íþróttum,“ segir í pistli í nýjasta tölublaði Áveitunnar.

Á málþinginu verður farið yfir þær sameiningarhugmyndir sem stjórnir ungmennafélaganna hafa rætt á síðustu misserum og í kjölfarið verða almennar umræður um hverskonar íþrótta- og menningarlíf íbúar í Flóahreppi vilja að fari fram í sveitinni.

Fyrri greinRegnbogahátíðin um næstu helgi
Næsta greinUmferðartafir í Kömbum