„Þetta voru bara þrjú drasl mörk“

Einar Ottó Antonsson stóð í ströngu inni á miðjunni hjá Selfyssingum gegn Fram í kvöld og hann var frekar niðurlútur í leikslok.

„Ég veit ekki alveg hvernig þetta leit út utanfrá en þetta var dálítið skrítinn leikur. Það var aldrei nein pressa af okkar hálfu á fyrsta manni og þeir höfðu endalausan tíma til að athafna sig,“ sagði Einar Ottó í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Svo voru mörkin þeirra þvílíkt ódýr. Þetta voru bara þrjú drasl mörk.“

Selfyssingar voru vel inni í leiknum þangað til þriðja mark Framara leit dagsins ljós en eftir það fór tíminn til að skora hratt minnkandi. „Við fórum að pressa síðasta korterið og ef við hefðum sett eitt þá var alltaf séns á öðru. Það hefði ekki verið neinn heimsendir að taka eitt stig héðan í kvöld,“ sagði Einar sem átti erfiðan dag á miðjunni.

„Já, þetta var erfiður leikur. Við vorum langt frá þeim á miðjunni og þurftum að hlaupa mikið. Annars er erfitt að segja nokkuð um þetta fyrr en maður nær sér niður og sér þetta í sjónvarpinu.“