„Þetta verður brekka“

„Eins og tölurnar gefa til kynna var þetta afar slakt í kvöld, bæði í vörn og sókn,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, eftir 24-37 tap gegn ÍBV í kvöld.

„Við létum fullorðna menn berja okkur, gátum ekki svarað og köstuðum þessu snemma frá okkur. Það munaði líka mikið um að hafa Atla [Kristinsson] ekki með í dag. Hann er mikilvægur sóknarlega en það gleymist oft að hann er líka einn af betri varnarmönnum liðsins og leiðtogi innan vallar,“ sagði Arnar, en Atli er meiddur á hendi og verður vonandi tilbúinn í næsta leik.

Selfoss leiddi 7-6 þegar ÍBV breytti stöðunni í 8-16 á stuttum tíma. „Við vorum að tapa alltof mörgum boltum og fáum mörg hraðaupphlaup á okkur. Sóknir okkar voru illa ígrundaðar, menn voru lengi með boltann og klipptu illa. Það er ljóst að það er ærin vinna framundan hjá okkur.“

Selfoss hefur tapað báðum leikjum sínum í deildinni en Arnar er rólegur og segir liðið vinna eftir ákveðnu plani. „Þetta verður brekka. Við misstum níu leikmenn og fengum engan í staðinn. Yngri leikmenn þurfa að axla meiri ábyrgð en það er góður skóli fyrir þá. Við erum með plan í gangi og við sjáum til hvernig rætist úr því.“