„Þetta var rússíbanareið“

Selfoss vann í dag dramatískan sigur á ÍBV í 8-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu. Alexa Gaul, markvörður Selfoss, var hetja liðsins í leiknum, sem lauk með vítaspyrnukeppni.

„Þetta var rússíbanareið, við byrjuðum mjög vel og svo kom einhver smá hræðsla í þetta hjá okkur. Mér fannst ÍBV betri í smá tíma en svo náðum við ágætum tökum á leiknum. Það gerðist hins vegar ekki mikið og bæði lið voru hrædd um að fá á sig mark og vildu ekki detta út. í framlengingunni fannst mér við hafa ákveðna yfirburði þó að þær væru gríðarlega hættulegar,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar geta þakkað markverði sínum, Alexa Gaul, sigurinn en hún átti frábæran leik. Gunnar var sammála því: „Hún spilaði eins og atvinnumaðurinn sem hún er í dag. Hún varði tvær vítaspyrnur og skoraði eitt mark í vítakeppninni auk þess að vera frábær í leiknum. Hún var klárlega besti maðurinn okkar, talaði vel og stjórnaði vel og bar af sér góðan þokka,“ sagði Gunnar.

Selfossliðið hefur aldrei náð svona langt í bikarkeppninni og Gunnar segir að liðið ætli að sjálfsögðu alla leið. En á hann einhverja óskamótherja? „Nei, það skiptir engu máli þegar keppnin er komin á þetta stig. Það eru hrikalega erfið lið í pottinum en það skiptir engu máli hverjum við mætum næst.“

Frábær byrjun og baklás í kjölfarið
Selfyssingar voru miklu sterkari í upphafi leiks og á 11. mínútu fékk Anna María Friðgeirsdóttir allan tímann í heiminum til þess að athafna sig úti á hægri kantinum. Hún sendi góðan bolta inn í vítateig og þar var Dagný Brynjarsdóttir alein á teignum og skallaði boltann í netið.

Eftir þessa frábæru byrjun settu Selfyssingar í bakkgírinn og voru ákaflega ósannfærandi næstu mínúturnar, líkt og í deildarleiknum gegn Stjörnunni fyrr í vikunni.

Shaneka Gordon komst í gott færi fyrir ÍBV á 16. mínútu þegar hún slapp inn vinstra megin en skaut rétt framhjá fjærstönginni og þremur mínútum síðar átti ÍBV stangarskot. Nadia Lawrence átti frábæra sendingu inn á Kristínu Ernu Sigurlásdóttur en laust skot hennar fór í stöngina.

Selfoss átti fáar sóknir það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en á 34. mínútu átti Guðmunda Óladóttir frábæra sendingu innfyrir á Dagnýju en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir varði hörkuskot frá Dagnýju í horn – þó að engin hornspyrna væri dæmd. Þær Guðmunda og Dagný voru aftur á ferðinni 42. mínútu en varnarmaður ÍBV komst fyrir skotið á síðustu stundu og bjargaði í horn. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks voru rólegar en síðan fóru Eyjamenn að herða tökin og Selfossvörnin átti í miklum vandræðum á köflum, sérstaklega þegar Shaneka Gordon fékk boltann. Fyrir aftan Selfossvörnina átti Gaul hins vegar frábæran dag og spilaði sinn langbesta leik hingað til í bleiku Selfosstreyjunni.

Á 54. mínútu slapp Gordon innfyrir Selfossvörnina og sendi fyrir á Lawrence en Thelma Björk Einarsdóttir renndi sér fyrir boltann, sem breytti um stefnu og Gaul hirti hann upp á marklínunni.

Selfoss hefði getað gert út um leikinn á 63. mínútu þegar langbesta færi leiksins leit dagsins ljós. Celeste Boureille tók þá frábæran sprett upp að vítateig ÍBV og sendi innfyrir á Ernu Guðjónsdóttur sem var dauðafrí en skaut beint á Bryndísi Láru.

Eyjakonur voru sterkari síðustu tuttugu mínútur leiksins og á 72. mínútu jafnaði Þórhildur Ólafsdóttir metin þegar hún renndi sér á boltann af stuttu færi í teignum eftir sendingu frá Gordon.

Gordon var aftur á ferðinni á 76. mínútu en skaut framhjá eftir góðan sprett vinstra megin. Hún tætti svo Selfossvörnina í sig fimm mínútum síðar en Gaul kom vel út á móti og hirti boltann af tánum á Gordon.

Síðasta færið í venjulegum leiktíma áttu Eyjamenn þegar þær fengu aukaspyrnu í uppbótartíma en Vesna Smiljkovic þrumaði boltanum í þverslána. 1-1 að loknum venjulegum leiktíma.

Fjörug framlenging
Framlengingin var fjörug og bæði lið fengu stórhættuleg færi. Selfyssingar höfðu betur í baráttunni úti á vellinum en fóru mjög varlega í sókninni og settu ekki mikla pressu á Eyjaliðið.

Á 95. mínútu átti Eva Lind Elíasdóttir góðan sprett upp völlinn og renndi boltanum inn á Guðmundu. Hún þurfti hins vegar að teygja sig í boltann og Bryndís Lára kom út á móti og varði mjög vel. Fimm mínútum síðar slapp Gordon innfyrir hinu megin en Gaul var vel á verði og varði glæsilega.

ÍBV fékk dauðafæri á 108. mínútu en enn var Gaul vandanum vaxinn og mínútu síðar voru Selfyssingar nálægt því að skora. Kristrún Rut Antonsdóttir, sem átti mjög góðan leik á miðjunni, tók þá langt innkast en boltinn sigldi í gegnum allan pakkann í markteignum og Eva Lind var hársbreidd frá því að reka tána í boltann.

Shaneka Gordon var enn á ferðinni fyrir ÍBV á 111. mínútu þegar hún sendi boltann inn á Kristínu Ernu en Gaul varði mjög vel í horn. Síðasta færi leiksins datt svo Selfossmegin þegar Eva Lind skallaði rétt framhjá eftir fína fyrirgjöf frá Thelmu Björk. 1-1 eftir 120 mínútur af knattspyrnu og þess vegna gripið til vítaspyrnukeppni.

Þar reyndist Gaul hetja Selfyssinga en hún skoraði úr þriðju spyrnu Selfoss og varði svo tvær næstu spyrnur ÍBV liðsins.

Selfoss er því komið í undanúrslit Borgunarbikarsins ásamt Stjörnunni, Breiðablik og Fylki. Dregið verður í undanúrslit í hádeginu á mánudag.

Gangur vítakeppninnar:
2-1 Thelma Björk Einarsdóttir, Selfoss
2-2 Sigríður Lára Garðarsdóttir, ÍBV
3-2 Celeste Boureille, Selfoss
3-3 Shaneka Gordon, ÍBV
4-3 Alexa Gaul, Selfoss
4-3 Alexa Gaul ver frá Nadia Lawrence. Aðstoðardómarinn flaggar réttilega á Gaul sem var komin langt fram af línunni og spyrnan er endurtekin. Gaul leiðist þófið og grípur seinni spyrnuna út við stöng.
5-3 Dagný Brynjarsdóttir, Selfoss
5-3 Alexa Gaul ver frá Kristínu Ernu Sigurlásdóttur og tryggir Selfyssingum sigurinn.

Fyrri greinHátíðarstemmning hjá Ægismönnum
Næsta greinLeit lokið í Bleiksárgljúfri