„Þetta var liðssigur“

„Þetta var bara alveg eins og úrslitakeppnin á að vera, spennandi og skemmtilegt,“ sagði Ragnar Nathanaelsson, leikmaður Þórs, í samtali við sunnlenska.is eftir sigurleikinn gegn Grindavík í kvöld.

Þórsarar sigruðu 98-89 og jöfnuðu 1-1 í einvígi liðanna í úrslitakeppni Domino’s-deildarinnar.

„Við eigum það til að detta niður og missa sjálfstraust í vörninni eins og gerðist í síðasta leik, en við litum í eigin barm og löguðum til í vörninni í kvöld. Það var það sem færði okkur þennan sigur,“ sagði Ragnar sem bíður spenntur eftir næsta leik, í Grindavík á fimmtudaginn.

„Heimavöllur Grindvíkinga er mjög erfiður en við erum búnir að vinna þar í deildinni í vetur þannig að við vitum að við getum það. Við þurfum bara að mæta tilbúnir, eins og við gerðum í kvöld,“ sagði Ragnar sem átti fínt framlag fyrir Þór í kvöld, með fjórtán stig og fjórtán fráköst.

„Já, ég er mjög ánægður með sjálfan mig eftir svona leik, en þetta var liðssigur og ég er mjög ánægður með strákana. Ég er ekki búinn að skoða tölfræðina mína í kvöld en mér líður mjög vel eftir svona leik.“