„Þetta var kannski ekki fallegt”

„Ég var orðinn smeykur en þetta var náttúrulega ótrúlega sætt að vinna þetta,” sagði Björn Kristinn Björnsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss, eftir sigurinn á Haukum.

„Við áttum erfitt fyrir leik, það hafa verið mikil veikindi í liðinu og það voru ekki allar frískar í leiknum. Þess vegna var ég tiltölulega sáttur að halda bara og halda hreinu, það var kannski markmiðið í leiknum,” sagði Björn í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við ætluðum að verjast og leyfa þeim að hafa boltann og mæta þeim þéttar við miðjuna. En það var svolítið stress þannig að við bökkuðum og vorum alveg svakalega djúpar. Það var alveg sama hvernig ég öskraði og reyndi að fá þær framar á völlinn, það gekk ekki. Við héldum ekki línunni og vorum alltaf að gefa þeim færi á að liggja með tvo þrjá réttstæða leikmenn en við löguðum það í hálfleik.”

Björn segir að liðið sé búið að skila mikilli vinnu varnarlega það sem af er mótinu og það þétti hópinn. „Það þrýstir liðinu saman þegar menn eru að verjast saman. Eins og ég segi fyrir hvern einasta leik þá hef ég ekki áhyggjur af því að við potum ekki inn einu marki. Við hefðum reyndar átt að loka betur á þær í seinni hálfleik, þá vorum við að fá boltann yfir okkur og þær eru með fljóta sóknarmenn sem hefðu átt að refsa okkur. En sem betur fer erum við með klassa markvörð í liðinu sem átti frábæran leik í kvöld og var klárlega maður leiksins,” sagði Björn ennfremur.

Þó að lítið sé búið af mótinu er óhætt að segja að þessi sigur hafi verið Selfossliðinu mikilvægur og Björn er sammála því. „Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur og góð þrjú stig. Við áttum ekki góðan leik, en við áttum kannski ekki heldur vondan leik. Hann bara féll öðruvísi en við ætluðum okkur. Það gekk ekki að vera djúpar og sækja hratt en samt sem áður vörðumst við, héldum hreinu og potuðum inn einu. Þetta var kannski ekki fallegt en þetta voru þrjú stig.”

Fyrri greinÞjófnaður um hábjartan dag
Næsta greinÆgir tapaði í Fagralundi