„Þetta var geggjað í 40 mínútur“

Gnúpverjar unnu annan leik sinn í röð í 1. deild karla í körfubolta í kvöld og skildu FSu eftir í rykinu í botnsæti deildarinnar. Liðin áttust við í Iðu og sigruðu gestirnir 87-96.

„Þetta var geggjað í 40 mínútur, þvílíkur kraftur og ágætis gæði oft á köflum,“ sagði Máté Dalmay, þjálfari Gnúpverja í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hann sagði baráttuna í sínum mönnum, frá fyrstu sekúndu leiksins, hafa skapað þennan sigur.

HAuðvelt að peppa þegar menn borga fyrir þetta sjálfir
„Við erum búnir að tala um það allt árið að mæta og berjast. En það er allt annað að koma og gera það frá fyrstu sekúndu í stað þess að byrja þegar við erum lentir fimmtán stigum undir. Við erum ekki með gæði í þessari deild til þess að vinna til baka fimmtán, tuttugu stig, þannig að þetta snýst ótrúlega mikið um það hjá okkur að halda okkur í jöfnum leik í byrjun því ef við missum lið frá okkur og þurfum að nota orkuna í að vinna niður forskot þá er erfitt fyrir okkur að hafa gæði og orku í það að klára leiki og vinna í lokin,“ bætti Máté við.

Hann segir að það hafi verið auðvelt að gíra sína menn inn í leikinn í kvöld. „Þetta er bara geggjað. Við erum tíu stigum yfir á útivelli á móti strákum sem eru að æfa alla daga, með styrktarþjálfara og í geggjuðu formi. Strákarnir mínir eru að borga æfingagjöld. Þú getur rétt ímyndað þér hvað það er auðvelt að peppa sig upp í það að koma hingað og spila í korter, tíu mínútur, þegar menn eru að borga fyrir það sjálfir.“

Gnúpverjar sterkari í upphafi leiks
Gnúpverjar voru sterkari í fyrri hálfleiknum, komust í 4-12 í upphafi, og leiddu 12-19 að loknum 1. leikhluta. Munurinn jókst í 2. leikhluta og Everage Richardson lokaði fyrri hálfleiknum með frábærri þriggja stiga flautukörfu og tryggði Gnúpverjum 11 stiga forskot í leikhléi, 34-45.

FSu-liðið mætti betur stemmt inn í seinni hálfleikinn þar sem Ari Gylfason var allt í öllu í 3. leikhluta og heimamenn náðu að minnka muninn niður í eitt stig, 64-65, með þriggja stiga körfu frá Ara undir lokin.

Síðasti fjórðungurinn var spennandi framan af en báðum liðum gekk illa að skora á köflum og þegar leið á leikinn fór að halla meira á heimamenn. Þórir Sigvaldason setti niður þrigga stiga körfu þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir og kom Gnúpverjum sjö stigum yfir. Róðurinn var þungur fyrir FSu á lokamínútunum og þeir náðu ekki að svara fyrir sig. Lokatölur 87-96.

Richardson var frábær
Richardson var frábær í liði Gnúpverja og skoraði 47 stig. Hákon Már Bjarnason átti einnig góðan leik og Tómas Steindórsson sömuleiðis en hann kom virkilega sterkur inn í fráköstum og var sínum mönnum mikilvægur á lokakaflanum.

Hjá FSu bar Ari Gylfason uppi leik liðsins lengi vel en hann var stigahæstur með 27 stig. Jett Speelman var sömuleiðis öflugur og sterkur undir körfunum á báðum endum vallarins.

Gnúpverjar eru nú með 4 stig í 6. sæti deildarinnar en FSu er án stiga á botninum eftir fimm leiki.

Tölfræði FSu: Ari Gylfason 27/11 fráköst, Jett Speelman 20/13 fráköst, Florijan Jovanov 13, Haukur Hreinsson 10/7 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 6, Hlynur Hreinsson 5/4 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 4, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2.

Tölfræði Gnúpverja: Everage Richardson 47/7 fráköst/5 stolnir, Ægir Bjarnason 11, Tómas Steindórsson 8/12 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 6, Hákon Már Bjarnason 6/9 fráköst, Þórir Sigvaldason 4, Eyþór Ellertsson 4, Bjarki Rúnar Kristinsson 4/4 fráköst, Svavar Geir Pálmarsson 4/4 fráköst, Garðar Pálmi Bjarnason 2.

Fyrri greinSelfosstónar í kirkjunni í kvöld
Næsta greinVelti bíl út í Ytri-Rangá