„Þetta var frábært í kvöld“

Selfoss vann öruggan sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Vallaskóla voru 36-29.

„Þetta var frábært í kvöld. Við höfðum stjórn á leiknum, vörnin var góð og Helgi var með 40% markvörslu. Við höfum ekki fengið svona frábæra markvörslu áður í vetur og svona verður þetta enn auðveldara fyrir okkur. Við vorum kærulausir í lokin en ég fyrirgef þeim það,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Nú tekur við rúmlega sex vikna hlé á deildinni vegna hátíðanna og EM í handbolta í janúar. Næsti deildarleikur er gegn Val á útivelli 1. febrúar.

„Nú er bara æfing á morgun og svo tökum við góðan fund áður en ég fer til Austurríkis og leggjum línurnar fyrir næstu vikur. Það er mjög mikilvægur tími framundan núna, desember og janúar,“ bætti Patrekur við, en hann er landsliðsþjálfari Austurríkis.

Selfoss byrjaði leikinn af krafti og náði strax góðu forskoti. Staðan var orðin 19:11 í leikhléi en seinni hálfleikurinn var jafnari.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssingar með 8 mörk en hann skoraði fjögur í röð á lokamínútunum. Haukur Þrastarson skoraði 6 mörk og átti góðan leik í vörninni líka. Teitur Örn Einarsson skoraði 5/2 mörk og Árni Steinn Steinþórsson skoraði 5. Hergeir Grímsson skoraði 3 mörk og stóð vörnina vel og Richard Sæþór Sigurðsson skoraði sömuleiðis 3 mörk og nýtti sínar mínútur vel.

Leikmaður úr 4. flokki með tvö mörk
Hinn 15 ára gamli Tryggvi Þórisson fékk eldskírnina í kvöld og skoraði 2 mörk úr 2 skotum og það gerði einnig Guðjón Baldur Ómarsson. Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoraði 1 mark, eins og markvörðurinn Helgi Hlynsson, sem þarf að stilla miðið aðeins betur því hann hefði getað skorað fleiri mörk í kvöld. Helgi varði svo 17/2 skot og var maður leiksins hjá Selfyssingum.

Selfyssingar eru nú í 4. sæti deildarinnar með 20 stig.

Fyrri greinPerla og Kristrún skoruðu mörkin
Næsta greinSöfnuðu 1,1 milljón króna á góðgerðardögum