„Þetta var fáránlega skrítið“

Fyrrum KR-ingurinn Ellert Arnarson kláraði leik Hamars og KR með frábærri þriggja stiga körfu þegar 37 sekúndur voru eftir af leik liðanna í Hveragerði í kvöld.

„Nei, þetta var nú ekki teiknað upp. Andre átti að fara alla leið en þeir skildu mig eftir opinn og skotið datt niður. Við vorum komnir aðeins undir í fjórða leikhluta og það var sterkt hjá okkur að klára þetta á móti svona góðu liði, þannig að ég er mjög sáttur,“ sagði Ellert í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Hamar leiddi mest allan fyrri hálfleik en í þeim síðari skiptust liðin á að halda forystunni þangað til KR náði 6 stiga forskoti í síðasta fjórðungnum, 76-82. Hamar skoraði hins vegar ellefu síðustu stigin og Ellert kom Hamri í 85-82 með þristinum sínum.

„Þeir skiptu yfir í svæðisvörn og eins mikið og við æfum hana þá var skrítið hvað við vorum lélegir á móti henni. Við þurftum nokkrar mínútur til að átta okkur og þegar við vorum búnir að því þá fór þetta að fljóta betur,“ sagði Ellert sem gekk í raðir Hamars í haust en hann er uppalinn hjá KR. En hvernig var að spila á móti sínum gömlu félögum?

„Þetta var fáránlega skrítið. Þetta eru allt góðir vinir mínir en ég er búinn að spila á móti þeim á æfingum í tíu ár þannig að ég er vanur því. En þetta er auðvitað öðruvísi. Annars var það þannig í fyrstu leikjum mínum fyrir Hamar, að þá kallaði ég alltaf „KR á“ þegar boltinn fór útaf. Strákarnir hafa verið að gera grín að mér útaf þessu. En þetta var fínt í kvöld kannski smá stress til að byrja með en svo spilaði maður bara körfubolta.“