„Þetta var eins og það ger­ist best“

Sel­fyss­ing­ar unnu frá­bær­an sig­ur á FH í Olís-deild karla í hand­bolta í kvöld. Loka­töl­ur í Valla­skóla urðu 24-23 og Selfoss fór upp í 5. sæti deildarinnar með 12 stig.

„Þetta var eins og það ger­ist best. Þetta var ein Selfossliðsheild í kvöld og ég vil fyrst og fremst þakka áhorfendunum sem voru frábærir. Strákarnir eru þakklátir fyrir þennan góða stuðning. Það var stress og spenna á lokakaflanum en við náðum vörsl­um og menn voru til í að taka af skarið. Við ætluðum ekki að tapa þess­um leik og við átt­um sig­ur­inn virki­lega skilið,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar pökkuðu FH-ingum saman í fyrri hálfleik og staðan var 12-7 í leikhléi. Leikurinn jafnaðist í seinni hálfleik og þegar sex mínútur voru eftir jafnaði FH 20-20. Sölvi Ólafsson varði hins vegar vel á lokakaflanum og Haukur Þrastarson og Teitur Örn Einarsson tóku frumkvæðið í sókninni og skoruðu mikilvæg mörk.

Teitur Örn var markahæstur Selfyssinga með 8/4 mörk. Haukur skoraði 6 mörk og átti frábæran leik, bætti við 7 stoðsendingum og 16 stöðvunum í vörninni. Atli Ævar Ingólfsson var líka drjúgur með 4 mörk af línunni. Hergeir Grímsson skoraði 3 mörk, Sigurvin Ármannsson 2 og Einar Sverrisson 1.

Sölvi Ólafsson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 39% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 3 skot, þar af tvö vítaskot og var með 75% markvörslu.

Fyrri greinTvö töp á Akureyri
Næsta greinÞrír fluttir með þyrlu á slysadeild