„Þetta fjaraði hratt út hjá okkur“

Þorlákshafnar-Þórsurum tókst ekki að koma sér í toppsæti Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld því liðið tapaði 77-94 gegn toppliði Stjörnunnar á heimavelli.

Sigur hefði komið Þór uppfyrir Stjörnuna, á toppinn.

„Þetta var mjög kaflaskipt. Við vorum fantagóðir í 1. leikhluta en forystan hvarf samt óþægilega hratt í upphafi 2. leikhluta. Þetta fjaraði hratt út hjá okkur og þeir fóru að hitta vel. Við töluðum um það í hálfleik að tveggja stiga munur í hálfleik væri eitthvað sem við hefðum samþykkt fyrir leik. En þeir byrja seinni hálfleikinn eins og þeir kláruðu þann fyrri og náðu sér í tíu plús forystu. Það fór of þungt í okkur. Það var ekki það að menn væru ekki að reyna, heldur vantaði alltaf herslumuninn,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, í leikslok.

Þórsarar fóru á kostum í 1. leikhluta og náði 18 stiga forskoti en Stjarnan svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og leiddi í leikhléi, 43-45. Í seinni hálfleik réðu Þórsarar ekkert við Stjörnumenn sem spiluðu frábæra vörn og hleyptu heimamönnum ekki nálægt sér.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 22 stig/11 fráköst, Maciej Baginski 14 stig/4 fráköst, Halldór Hermannsson 14 stig, Emil Karel Einarsson 7 stig/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 5 stig/5 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 4 stig, Ólafur Helgi Jónsson 4 stig, Grétar Ingi Erlendsson 4 stig, Ragnar Örn Bragason 3 stig.