„Þetta er virðingin sem sveitastrákarnir í KFR fá“

Liðsmenn Knattspyrnufélags Rangæinga blésu á allar hrakspár í 3. deild karla í knattspyrnu í dag þegar liðið vann Berserki 1-0 á heimavelli í 1. umferð deildarinnar.

„Það er virkilega ánægjulegt að vinna fyrsta leikinn á tímabilinu, við höfum ekki gert það áður undir minni stjórn. Það tekur aðeins pressuna af liðinu að skila strax þremur stigum,“ sagði Guðmundur Garðar Sigfússon, þjálfari KFR, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Mér fannst við vera með leikinn í okkar höndum lengst af og vorum klaufar að skora ekki mark númer tvö, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vorum betri framan af seinni hálfleik en síðasta korterið reyndum við að verja markið og þeir komust inn í þetta,“ sagði Guðmundur. Hann gefur lítið fyrir spámennsku þjálfaranna í deildinni sem spá KFR neðsta sætinu í deildinni.

„Eins og þú last á fotbolti.net erum við með virkilega góðan og vel skipulagðan varnarleik og það sýndi sig í dag. En mér finnst mjög skrítið að okkur sé spáð 10. sæti þar liðið hefur undir minni stjórn lent í 3. og 5. sæti í deildinni á síðustu tveimur árum. Þetta er virðingin sem sveitastrákarnir í KFR fá, þannig að við sendum bara skýr skilaboð til hinna liðanna sem halda að við séum lélegasta liðið í deildinni. Þau skulu passa sig þegar KFR mætir á völlinn,“ sagði Guðmundur vígreifur.

Rangæingar byrjuðu betur í leiknum, með stífan vind í bakið, og strax á 8. mínútu kom eina mark leiksins. Þá lagði Markús Árni Vernharðsson boltann fyrir sig fyrir utan teig og lét vaða í bláhornið. Glæsimark.

Annars var leikurinn var opinn í fyrri hálfleik en KFR gekk betur að skapa sér færi. Þórhallur Lárusson, Hjalti Kristinsson og Guðmundur Garðar hefðu allir átt að nýta sín færi betur en gekk illa að hitta á rammann.

KFR hafði góð tök á leiknum í síðari hálfleik en færin létu á sér standa. Helgi Ármannsson komst næst því að skora á 79. mínútu þegar hann skaut í hliðarnetið eftir góða sendingu innfyrir frá Hauki Inga Gunnarssyni.

Varnarleikur KFR var mjög fínn í dag með nýliðana Goran Jovanovski og Birki Pétursson í hjarta varnarinnar en Berserkir fengu ekki færi í seinni hálfleik fyrr en á 89. mínútu að þeir áttu skot framhjá, utan teigs eftir hornspyrnu. Á fjórðu mínútu uppbótartíma skall hins vegar hurð nærri hælum þegar Berserkir áttu annað skot utan af velli sem Gunnar Hallgrímsson varði glæsilega í stöngina.

Rangæingar önduðu léttar og nokkrum sekúndum síðar fögnuðu þeir sínum fyrsta sigri í 3. deildinni þetta sumarið.

Fyrri greinÞykkvabæjar í söluferli
Næsta greinEfla hinsegin fræðslu í grunnskólum Árborgar