„Þetta er tækifæri sem kemur bara einu sinni“

Halldór Björnsson, knattspyrnuþjálfari frá Eyrarbakka, hefur skrifað undir þriggja ára samning við kínverska knattspyrnusambandið en hann verður aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins.

Þar mun hann starfa við hlið Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, sem var ráðinn aðalþjálfari liðsins á dögunum.

Halldór fór til Kína fyrr í vikunni og skrifaði svo undir samninginn í gær.

„Nú er ég búinn að skrifa formlega undir og það eru mjög spennandi tímar framundan. Þetta er tækifæri sem kemur bara einu sinni. Ég ætlaði að taka mér árs frí frá þjálfun en það hélt í ellefu mánuði,“ sagði Halldór í samtali við sunnlenska.is.

Honum líst vel á aðstæður í Kína en kínverska landsliðið er hátt skrifað í kvennaboltanum og situr nú í þrettánda sæti heimslistans. Það verða þó mikil viðbrigði fyrir Íslendinginn að kynnast fjölmennasta landi í heimi, þar sem rúmlega 1,3 milljarður manna býr.

„Kína er samt ekki stærra en það að ég fékk sama túlk og Viðar Örn Kjartansson hafði þegar hann bjó hérna. Tveir frá knattspyrnudeild Selfoss með sama túlk, það er magnað. Og túlkurinn segir mér að Kjartan syngi vel,“ sagði Halldór léttur í bragði.

Halldór var síðast þjálfari U17 ára landsliðs karla, en hann hætti þar í desember á síðasta ári. Á meðan hann var að þjálfa U17 sá hann jafnframt um hæfileikamótun hjá KSÍ.

Halldór og Sigurður þekkjast vel, en Halldór var í þjálfarateymi A-landsliðs kvenna sem komst í 8 liða úrslit í lokakeppni EM Í Svíþjóð 2013. Sigurður Ragnar þjálfaði þá A-landslið kvenna.


Halldór ásamt kínverska túlknum sem er stórvinur Kjartans Björnssonar.

Fyrri greinFyrsti sigur Fjölnis kom á Selfossi
Næsta grein„Átti ekki von á því að einhver myndi kaupa sér kaffibolla“