„Þetta er klárlega stærsti sigurinn“

ÍF Mílan vann ótrúlegan sigur á Fjölni í 1. deild karla í handbolta, 24-22, í rosalegum leik í Vallaskóla á Selfossi í kvöld.

Fjölni er spáð 2.-3. sæti í deildinni í vetur á meðan reiknað er með að Mílumenn skemmti sér vel í neðri hluta deildarinnar. Fullyrða má að Mílan hafi gert nágrönnum sínum í liði Selfoss stórgreiða með því að sigra Fjölni í kvöld.

Atli Kristinsson, stórskytta Mílunnar, var uppgefinn – en kátur – í leikslok. „Þetta var baráttusigur. Við tókum þetta á liðsheildinni og einhverjum aukakröftum í lokin. Vörnin var ótrúlega góð í kvöld og markvarslan sömuleiðis og svo erum við komnir með mikla reynslu á bekkinn með Basta aðstoðarþjálfara,“ sagði Atli í samtali við sunnlenska.is.

„Ég hugsa að það hafi enginn haft trú á þessu fyrir leik, nema við sjálfir innst inni. Markmiðið okkar í vetur er að hafa gaman og berjast og reyna að búa til einhverja leiki og það hafðist í kvöld. Þetta var svo sannarlega skemmtilegt og þetta er klárlega stærsti sigurinn í sögu félagsins.

Atli átti stórleik í sókninni og kom að nítján mörkum liðsins með því að skora eða leggja upp. „Það var einhver heppni í þessu,“ sagði stórskyttan hógvær að lokum.

Vörnin frábær í fyrri hálfleik
Mílan skoraði fyrsta markið, Fjölnir jafnaði 1-1 en Mílan skoraði næsta mark og leiddi það sem eftir lifði leiks. Staðan var7-3 eftir fimmtán mínútur en leikar stóðu 15-9 í hálfleik eftir að munurinn hafði mestur orðið 8 mörk. Það blés þó ekki byrlega í upphafi fyrir Míluna í vörninni því Eyrarbakkatröllið Ómar Helgason meiddist eftir 22 sekúndur í vörninni. Þá steig hins vegar Sigurður Már Guðmundsson upp og átti frábæran leik í vörninni. Atli Kristinsson fór mikinn í sókninni í upphafi leiks og Sverrir Andrésson átti stórleik í markinu. Sverrir varði m.a. fyrstu þrjú vítin sem hann fékk á sig, en fjórða vítið varði hann inn.

Allt virtist stefna í öruggan sigur Mílunnar gegn andlausum Fjölnismönnum í síðari hálfleik. Stemmningin var öll Mílumegin þar sem menn lögðu sig alla fram í vörn og sókn. Ein bestu kaup Mílunnar í haust voru að fá Gunnar Pál Júlíusson frá Selfossi. Gunnar Páll, eða „Skriðdrekinn“ eins og hann verður hér eftir nefndur, var á miklu skriði á línunni og fiskaði fimm af tíu vítum sem Mílan fékk. Þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn ennþá sex mörk, 19-13, en þá fór að hrikta í stoðum Mílunnar.

Fjölnismenn tóku þá Atla Kristins og Ársæl Ársælsson úr umferð í sókninni og þegar Fjölnismenn voru einum og tveimur fleiri, eftir óklókar brottvísanir Mílumanna, þá spiluðu þeir maður á mann. Mílan gerði hver mistökin á fætur öðrum sem skilaði Fjölni mörkum í kjölfarið. Þannig átu gestirnir forskotið hratt upp og munurinn var kominn niður í eitt mark þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Skriðdrekinn fiskaði þá víti sem Atli skoraði úr og í kjölfarið minnkar Fjölnir muninn aftur í eitt mark. Það var hinsvegar nýskipaður fyrirliði Mílunnar, Gunnar Ingi Jónsson, sem steig upp þegar 20 sekúndur voru eftir og tryggði Mílunni sigur, 24-22, með frábæru marki.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 14 mörk auk þess sem hann átti 5 stoðsendingar. Gunnar Ingi skoraði 4, Ársæll 3 og þeir Magnús Már Magnússon, Sigurður Már og Sævar Ingi Eiðsson skoruðu allir 1 mark.

Sverrir varði 25/3 skot í marki Mílunnar og var með 54% markvörslu. Atli og Sigurður Már voru saman með 5 bolta varða í vörninni.

Fyrri greinHamar tapaði í Borgarnesi
Næsta greinElvar markahæstur í tapi Selfoss