„Þetta er hrein skemmtun“

Valur Ingimundarson var ánægður með „guttana“ sína í FSu liðinu sem lögðu Þór Ak. á dramatískan hátt í Iðu í kvöld.

„Þetta var frábær leikur fyrir áhorfendur. Við spiluðum vel í seinni hálfleik og framlengingunni eftir að hafa lent 20 stigum undir. Við byrjuðum ekkert leikinn. Það var enginn að spila vörn og allir að fá villur í byrjun leiks,“ sagði Valur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við héldum samt haus og náðum þessu þó að allir væru komnir í villuvandræði. Það lögðu allir sitt af mörkum og við sýndum mikin karakter,“ sagði Valur.

FSu hefur sýnt það í fyrstu leikjum vetrarins að þeir gefast aldrei upp og þeir voru mun sterkari í síðari hálfleik. „Við erum yngri og léttari en hin liðin. Við höfum ekki sama kraft og vöðvamassa en við höfum gríðarlega baráttuglaða og skemmtilega stráka. Ég hvet fólk til að koma og horfa á guttana, þetta er hrein skemmtun,“ sagði Valur að lokum en mjög rúmt var um áhorfendur á pöllunum í kvöld.