„Þetta er bara gaur í vinnu“

Everage Richardson var besti maður vallarins í kvöld með 47 stig og framlagseinkunn upp á 47, þegar Gnúpverjar lögðu FSu 87-96 í Iðu í 1. deild karla í körfubolta.

Máté Dalmay, þjálfari Gnúpverja, var að sjálfsögðu ánægður með sinn mann, þó að fleiri Gnúpverjar hafi átt góðan leik.

„Everage skoraði 47 stig en þegar þeir fóru að spila svæðisvörn og taka hann úr leik, þá var fullt af strákum hjá okkur að stíga upp og gera góða hluti. Ef við erum með hann í yfir 40 stigum þá þarf svo lítið að koma frá hinum til þess að við vinnum leiki. Þetta gerðist á stuttum kafla og þá náðum við forskotinu upp í tíu stig.“

Richardson hefur vakið mikla athygli í deildinni í vetur en hann hefur skorað 36,5 stig að meðaltali og tekið 7,5 fráköst. Hann er hæstur í deildinni í tölfræði yfir skoruð stig að meðaltali og með þriðju bestu framlagseinkunnina. En hvar fundu Gnúpverjar þennan leikmann?

„Ég skátaði hann svo vel,“ segir Máté og glottir. „Nei, djók hann býr á Íslandi. Hann var að leika sér uppi í Smára með strákunum og er búinn að vera atvinnumaður í tíu ár í Evrópu. Hann gifti sig í vor og var að íhuga það að setjast að á Íslandi með konu og barn. Við duttum heldur betur í lukkupottinn þarna, því við hefðum aldrei haft efni á því að leigja íbúð fyrir hann og gefa honum bíl. Þetta er bara gaur í vinnu. Og hann er oft að missa af æfingum af því að hann er að vinna eða þarf að vera með börnunum sínum. Og að fá 47 stig frá svoleiðis gæja, það er lukkupottur.“

Fyrri greinVar að skrifa SMS og velti
Næsta greinÍsland allt