„Þessir strákar eru tilbúnir að leggja sig fram“

Karlalið FSu í körfubolta hefur senn keppni í Domino’s-deildinni eftir nokkurra ára fjarveru úr efstu deild. Sunnlenska settist niður með Erik Olson, þjálfara og Gylfa Þorkelssyni, formanni.

Síðast þegar undirritaður hitti Erik og liðsmenn hans, þá voru þeir í trylltum fagnaðarlátum í Frystikistunni í Hveragerði í vor eftir að hafa slegið Hamar út í umspili og tryggt sér sæti í efstu deild. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

„Þetta er búinn að vera langur og strangur gangur síðan í vor. Það hafa orðið breytingar bæði á leikmannahópi karlaliðsins og stjórn félagsins, auk þess sem iðkendum í yngri flokkum hefur fjölgað mikið,“ segir Gylfi.

„Tveir leikmanna liðsins á síðasta tímabili, þeir Erlendur Ágúst Stefánsson og Frasier Malcolm fóru til Bandaríkjanna og við fengum tvo stráka í staðinn, unga íslenska stráka sem eru efnilegir og vildu koma í akademíuna,“ segir Gylfi. Þessir leikmenn eru Gunnar Ingi Harðarson og Bjarni Geir Gunnarsson.

„Gunnar Ingi er 18 ára, uppalinn í KR en var úti í Bandaríkjunum síðustu tvö ár í menntaskóla. Honum bauðst að taka næsta skref þar en honum leist betur á að koma í eitt ár til okkar. Bjarni Geir er tvítugur og spilaði með Val í fyrra. Þeir eru hér vegna þess að þeir eru að stefna á sömu braut og vilja komast á samning erlendis í gegnum Erik og þá þjálfara sem hann er í sambandi við fyrir vestan haf,” segir Gylfi.

Þá er Chris Caird aftur genginn til liðs við FSu en hann lék meðal annars með liðinu í úrvalsdeildinni 2008-2010. Chris er öflugur leikmaður en hann var m.a. valinn í breska landsliðið í sumar og Gylfi segir að hann sé fyrirmyndarleikmaður.

„Við teljum okkur eiga hann alveg. Hann kom hérna til okkar alveg hrár og var fjögur ár í akademíunni. Svo fór hann í Drake University sem er 1. deildarskóli í Bandaríkjunum. Nú er hann búinn með sína háskólagráðu og vildi bara koma til okkar, aftur heim. Við erum montnir af honum. Vinnusemi hans og viðhorf er alveg frábært og hann verður mikil fyrirmynd hérna í félaginu.“

Höfum metnað og viljum gera þetta vel
Auk breytinga á leikmannahópnum þá hefur ný stjórn tekið við störfum en Víðir Óskarsson hætti sem formaður í vor.

„Víðir tilkynnti það á lokahófinu í vor að hann ætlaði að hætta eftir að hafa unnið hérna gott starf í mörg ár. Það endaði með því að ég bauðst til þess að koma inn í stjórnina og við fengum líka nýjan gjaldkera, Gísla Jósep Hreggviðsson. Blaka systir hans kom líka inn í stjórnina en hún er með puttann á púlsinum á yngri flokka starfinu og Auður Rafnsdóttir er einnig ný í stjórn en hún er reynd körfuboltakona. Greta Sverrisdóttir er áfram í stjórninni og Anna Björg Þorláksdóttir og Ragnar Gylfason eru í varastjórn,“ segir Gylfi og bætir við að það vanti alltaf fleiri hendur til að leggja á plóg.

„Það er alltaf hægt að nota fleiri. Þetta er lítið félag og við höfum þurft að skera niður. Það voru svolitlar skuldir eins og gengur í íþróttafélögum þannig að við þurftum að skera niður stöðu framkvæmdastjóra. Okkur vantar auðvitað fleiri styrktaraðila þó að við séum með nokkra öfluga og góða styrktaraðila þá þarf meira til. Þetta kostar sitt.“

Gylfi segir það mikið stökk fyrir félagið að fara upp um deild en meiri kröfur séu gerðar í úrvalsdeildinni auk þess sem kostnaðurinn sé meiri.

„Við erum að fóta okkur í þessu, það þarf að læra hvaða kröfur eru gerðar í úrvalsdeild og við erum smám saman að læra það. Fjárhagslega er það líka dýrara, það eru þrír dómarar á leik, svo dæmi sé tekið, og það er heilmikill kostnaður. En við höfum metnað og viljum gera þetta vel og það segir sig sjálft að þá þarf að kosta einhverju til.“

Uppgangur í yngri flokkunum
En það er ekki bara uppgangur hjá karlaliði félagsins því feiknalegur vöxtur hefur verið í yngri flokkunum, sem telja nú yfir 100 iðkendur.

„Það var okkar lukka að fá Karl Ágúst Hannibalsson til liðs við okkur. Hann er alveg frábær þjálfari og það eru búnir að sópast krakkar í kringum hann, mest í minniboltanum. Yngri flokka starfið var eiginlega að deyja út á tímabili því það voru fáir krakkar í hverjum flokki en þetta hefur gjörbreyst. Það er frekar fátt í unglingaflokkunum en stór hópur í yngstu flokkunum, alveg upp í 7. bekk,“ segir Gylfi.

Morgunæfingar klukkan sex
Erik Olson hefur þjálfað karlalið FSu undanfarin ár auk þess sem hann þjálfar unglingaflokk félagsins og stýrir körfuboltaakademíunni. Hann segir að verkefni vetrarins sé stórt og það sé mikil áskorun fyrir FSu að takast á við úrvalsdeildina.

„Þetta er áskorun bæði andlega og líkamlega. Það er enginn leikur auðveldur í þessari deild og við náum ekki árangri nema liðið sýni sitt besta í hverjum einasta leik. Undirbúningstímabilið hefur gengið vel og liðið vaxið jafnt og þétt,“ segir Erik en liðið komst meðal annars í undanúrslit Lengjubikarsins um síðustu helgi. Alvaran tekur hins vegar við þann 15. október þegar Grindavík kemur í heimsókn í Iðu í fyrstu umferð Íslandsmótsins.

„Við æfðum í allt sumar. Chris Caird kom strax í vor og hjálpaði til við styrktarþjálfun liðsins en hópurinn er búinn að vera allur saman núna í rúmar sex vikur eftir að bandaríski leikmaðurinn kom til okkar. Iða var lokuð í haust þannig að aðstaðan til æfinga var ekki nógu góð. Við æfðum úti um allt, í Hveragerði, Þorlákshöfn og klukkan sex á morgnana í Vallaskóla. Það var vissulega áskorun en ég held að það gefi góð fyrirheit fyrir það sem koma skal í vetur. Ef við ætlum að ná árangri þá verðum við að yfirstíga hindranir. Þannig að þetta er líka jákvætt og menn höfðu engar afsakanir að mæta ekki klukkan sex á morgunæfingu,“ segir Erik.

Vinnusemi og jákvæðni eru lykilatriði
Hann bætir við að honum finnist hann vera með rétta blöndu leikmanna í höndunum. „Við bættum við fjórum leikmönnum en við erum samt með kjarnann frá því í fyrra; alla þessa stráka sem hafa verið með okkur í akademíunni og 1. deildinni og þeir eru spenntir fyrir því að takast á við úrvalsdeildina. Það er góður „kúltúr“ í klefanum og nýju strákarnir þurfa að falla inn í hópinn ef þeir ætla að standa sig.“

FSu valdi Bandaríkjamanninn Christopher Anderson til þess að leika með liðinu í vetur. Erik ber honum vel söguna en hann lagði á sig talsverða rannsóknarvinnu til að finna rétta leikmanninn.

„Við ræddum við nokkra þjálfara til að finna rétta leikmanninn, bæði þjálfara hans og þjálfara andstæðinga hans. Hann fékk mjög góð meðmæli fyrir vinnusemi og jákvæðni og er mjög góður körfuboltamaður. Við vildum byggja á því sem Collin Pryor hafði komið á fót hér á Selfossi. Hann var hér í tvö ár og var að gefa krökkunum fimmur og eiginhandaráritanir. Við þurftum að vera vissir um að hafa fengið rétta leikmanninn og ég tel svo vera,“ segir Erik.

„Bandaríski leikmaðurinn er samt bara lítill hluti af öllu púsluspilinu. Við erum með ellefu aðra leikmenn og kjarninn í liðinu eru heimamenn, okkar strákar sem hafa lagt mikið á sig til þess að komast á þann stað sem þeir eru á núna.“

Gylfi bætir við að þetta eigi ekki bara við bandaríska leikmanninn heldur líka ungu Íslendingana sem hafa gengið til liðs við félagið. „Við vorum að leita að leikmönnum sem myndu passa inn í hópinn, vinnusamir og jákvæðir. Það er alltaf lykilatriði fyrir okkur.“

Við erum fjölskyldufélag
Erik gerir sér miklar vonir um gott gengi í vetur og segir að í Iðu hafi menn ekki viljað fara upp um deild og sýna svo einhverja meðalmennsku.

„Í fyrsta lagi viljum við komast í úrslitakeppnina og í öðru lagi viljum við vera spennandi lið sem spilar skemmtilegan og hraðan körfubolta. Í þriðja lagi erum við stoltir af því að vera yngsta liðið í deildinni. Við erum fjölskyldufélag, þetta er lítill bær og við viljum halda áfram að byggja upp körfuboltann í samfélaginu. Þetta er áskorun en okkur hefur gengið vel að vaxa. Við viljum vera hluti af bæjarbragnum hérna í góðu samstarfi við íbúana og styrktaraðila okkar. Þannig viljum við fá fólk til að koma á leiki og styðja við bakið á okkur.“

Sem þjálfari leggur Erik metnað sinn í það að undirbúa liðið vel – betur en andstæðingurinn. „Við horfum á fleiri myndbönd, förum yfir mismunandi leikáætlanir frá viku til viku og nýtum okkur þá tækni sem við höfum aðgang að. Það hafa ekki allir jafn góða aðstöðu og við hér í Iðu, góðan aðgang að æfinga- og tækjasal auk þess sem við erum með fundaherbergi þar sem við getum horft á myndbönd á risaskjá,“ segir hann og bætir við að uppbyggingin og umgjörðin hjá FSu réttlæti það að liðið sé í efstu deild, ekki bara í vetur, heldur áfram á næstu árum.

Rétti tíminn til að virkja þessa orku
„Þá komum við aftur að því að þetta byrjar allt á grasrótinni og starfinu sem Kalli er að vinna með krökkunum. Þegar sú kynslóð heldur áfram að þróast og þroskast í umhverfinu okkar þá er það eitthvað sem getur enst. Markmið okkar er ekki bara að hafa frábært karlalið heldur líka að halda úti frábærri starfsemi í samfélaginu. Íslenska landsliðið hefur verið að standa sig vel og karlaliðið okkar er komið í efstu deild. Á Selfossi erum við með hundrað krakka sem hafa verið að fylgjast með þessu öllu þannig að núna er rétti tíminn til þess að virkja þessa orku og hjálpa körfuboltanum á Selfossi að taka framförum,“ segir Erik.

Gylfi tekur undir þetta og bætir við að FSu hafi alltaf fylgt þessari stefnu að standa og falla með sínum ungu leikmönnum og byggja liðið í kringum þá og akademíuna. „Við viljum helst að fá krakka héðan til að byggja upp akademíuna. Þegar við fórum upp þá hefði verið auðvelt að smala reyndum leikmönnum í liðið en sú stefna er ekki í gildi hjá okkur. Kjarninn og hjartað í liðinu er sá sami og í fyrra og þeir strákar þurfa bara að stíga upp og vaxa til þess að verða nógu góðir til að spila í úrvalsdeildinni. Við stöndum og föllum með því og trúum á það. Þessir strákar eru tilbúnir að leggja sig fram í þetta.“

Viðtal: Guðmundur Karl

Fyrri greinEnn hægt að taka þátt í verkefninu og ganga á fjöll
Næsta greinLjúffeng sítrónukaka (hnetulaus)