„Þeir litu út eins og Íslandsmeistarar“

Selfyssingar voru máttlitlir í sókninni í leiknum gegn FH í kvöld en það var miðvörðurinn Agnar Bragi Magnússon sem fékk bestu færin. Hann var svekktur í leikslok.

„Við vorum alveg bitlausir frá fyrstu mínútu og mættum einfaldlega ekki tilbúnir til leiks. Þegar maður mætir liði sem er búið að vinna Íslandsmeistaratitilinn fimm sinnum á síðustu sex árum þá verður maður að byrja á því að leggja sig fram,“ sagði Agnar Bragi í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„FH-ingarnir áttu öll einvígi og alla bolta í fyrri hálfleik en þetta skánaði aðeins þegar Einar Ottó kom inná í seinni hálfleik. Þeir fengu í það minnsta minni tíma á boltann þá.“

FH-ingar gerðu harða hríð að marki Selfoss framan af leik og skoruðu síðan mark beint úr hornspyrnu. „Markið lá í loftinu og þó að þetta hafi verið mark af ódýrari gerðinni þá þýðir ekki að svekkja sig á því. Maður spilar ekki betur en andstæðingurinn leyfir og FH-ingarnir leyfðu okkur svo sannarlega ekki neitt. Við létum þá líta út eins og sanna Íslandsmeistara.“

Sóknarþungi Selfyssinga var lítill þó að þeir hafi aðeins hresst upp á sóknarleikinn undir lokin. Agnar Bragi komst tvívegis í færi en inn vildi boltinn ekki. „Það að ég hafi fengið bestu færin í þessum leik segir mikið um okkar leik í dag. Við vorum ekki að skapa neitt. Ég hefði vissulega átt að gera betur, sérstaklega í skotfærinu en skallafærið var þröngt,“ sagði miðvörðurinn knái að lokum.