Þeir grænu í vandræðum með botnliðið

Þórsarar lentu í bullandi vandræðum með stigalaust botnlið Vals í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar mörðu 80-76 sigur á heimavelli.

Þórsarar voru skrefinu á undan í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 20-15. Þeir komust svo í 26-17 í upphafi 2. leikhluta en þá komu gestirnir til baka, náðu 17-5 áhlaupi og sneru leiknum sér í vil. Staðan var 34-39 í hálfleik.

Valsmenn höfðu forystuna allan 3. leikhluta og að honum loknum var munurinn þrettán stig, 50-63. Gestirnir héldu forskotinu fram í 4. leikhluta en Þórsarar nálguðust þá hægt og bítandi.

Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum jöfnuðu Þórsarar, 73-73 en Valsmenn svöruðu með þremur stigum í röð úr vítaskotum. Staðan var 73-76 þegar 1:37 mínútur voru eftir en það reyndust síðustu stig Vals í leiknum.

Hairston setti niður sniðskot fyrir Þór og fékk víti að auki í næstu sókn og á lokamínútunni hittu Valsmenn ekki úr skotum sínum eða þá að Hairston varði frá þeim. Blagoj Janev og Guðmundur Jónsson kláruðu leikinn fyrir Þórsara á vítalínunni.

Darrin Govens átti fínan leik fyrir Þór með 19 stig og 19 fráköst. Blagoj Janev skoraði 15 stig og Matthew Hairston 12. Baldur Þór Ragnarsson og Guðmundur Jónsson skoruðu 9 stig og þeir Darri Hilmarsson og Grétar Ingi Erlendsson voru báðir með 8 stig.

Þórsarar eru áfram í 4. sæti með 28 stig, eins og KR og Stjarnan sem hafa betur í innbyrðis leikjum.

Þórsliðið heimsækir Hauka á fimmtudaginn í lokaumferð deildarinnar.