„Það voru allir í einhverju rugli“

Markaskorarinn Jón Guðbrandsson var svekktur í leikslok eftir lélegan leik Selfyssinga gegn Fram í kvöld.

„Við vorum betri í fyrri hálfleik og hefðum getað klárað leikinn þá. Þeir fengu vissulega færi líka en við hefðum átt að gera betur. Síðan erum við ekki með fyrstu tuttugu mínúturnar af seinni hálfleik og þeir ná að skora á þeim tíma. Það er bara mjög erfitt að koma til baka eftir að menn lenda undir á móti liði eins og Fram,“ sagði Jón í samtali við sunnlenska.is í leikslok.

„Ég skil samt ekki hvað málið var í seinni hálfleik, þetta var vægast sagt mjög lélegt og það voru bara allir í einhverju rugli,“ sagði markaskorarinn og bætti við að mörk Fram hefðu verið af ódýrari gerðinni.

„Framararnir voru kannski sterkari en þetta er samt mjög svekkjandi. Það hefði verið sætt ef Einar hefði náð að skora þarna undir lokin en við verðum bara að herða okkur og mæta brjálaðir í næsta leik.“